Tækifæri Árni M. Mathiesen og Jón Scheving Thorsteinsson voru meðal ræðumanna sem ræddu tækifæri sjávarútvegsins erlendis.
Tækifæri Árni M. Mathiesen og Jón Scheving Thorsteinsson voru meðal ræðumanna sem ræddu tækifæri sjávarútvegsins erlendis. — Morgunblaðið/Sverrir
UNNIÐ er að því að kanna möguleika íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja til útrásar í Rússlandi.

UNNIÐ er að því að kanna möguleika íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja til útrásar í Rússlandi. Fjögurra ára gamall samningur Íslands og Rússlands um að greiða fyrir samstarfi einkaaðila frá báðum ríkjum varðandi veiðar, vinnslu og markaðssetningu sjávarafurða hefur ekki ýtt sem skyldi undir viðskipti landanna á sviði sjávarútvegs.

Þetta kom fram í ræðu Árna M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra á fundi um tækifæri í sjávarútvegi, sem haldinn var í gær. Þar sagði Árni svo: "Það er hins vegar vilji sjávarútvegsráðuneytis og utanríkisráðuneytis að freista þess hvort ekki sé hægt að efla þessi viðskiptatengsl. Því hafa ráðuneytin nú tekið höndum saman við undirstofnun hjá Alþjóðabankanum, IFC (The International Finance Corporation) og ákveðið að skoða með markvissum hætti tækifæri sjávarútvegsins og tengdra greina í Rússlandi. Útflutningsráð mun jafnframt koma að þessu verki auk nokkurra íslenskra fyrirtækja sem þegar hafa verið að horfa til viðskiptatækifæra sem í landinu kunna að leynast.

Greina einstök viðskiptatækifæri

Aðkoma IFC felst í því að leggja til vinnuaðstöðu í Rússlandi ásamt sérfræðiþekkingu en okkar er að leggja til starfsmann til verksins. Fyrsta skrefið verður að vinna grunnskýrslu þar sem farið verður yfir reglu- og lagaramma sjávarútvegsins í Rússlandi sem tekið hefur miklum breytingum að undanförnu. Þá verða skilgreindir þeir markaðir sem nýst geta þeim aðilum sem þátt taka í verkefninu og leitast við að greina einstök viðskiptatækifæri fyrir þá aðila sem að verkefninu koma."