ÁHUGAHÓPUR um uppbyggingu miðbæjarins á Akureyri hyggst efna til viðmikillar evrópskrar arkitektasamkeppni um heildarskipulag miðbæjarsvæðisins, allt frá Glerártorgi og suður fyrir Samkomuhús.

ÁHUGAHÓPUR um uppbyggingu miðbæjarins á Akureyri hyggst efna til viðmikillar evrópskrar arkitektasamkeppni um heildarskipulag miðbæjarsvæðisins, allt frá Glerártorgi og suður fyrir Samkomuhús. Áætlaður kostnaður við samkeppnina er um 30 milljónir króna og er fjármögnun lokið, með framlögum frá bankastofnunum, tryggingafélögum og öðrum stærri fyrirtækjum í miðbænum, að sögn Ragnars Sverrissonar, formanns Kaupmannafélags Akureyrar og kaupmanns í JMJ. Ragnar hefur farið fyrir hópnum, ásamt Loga Má Einarssyni arkitekt en hann sagði að fulltrúar þeirra aðila sem lagt hafi fram fjármagn til verkefnisins, muni einnig koma að framkvæmdinni. "Ég hugsa mér það að innan árs verði haldin í Íþróttahöllinni sýning á 30-50 tillögum frá arkitektum hér heima og erlendis um skipulag miðbæjarins. Þangað geti bæjarbúar komið og látið álit sitt í ljós á nýjum og glæsilegum tillögum um skipulag miðbæjarins með nýrri vídd. Með því að fá einnig arkitekta víða af landinu og erlendis að verkinu verður ekki bara horft á tilfinningar, heldur verði skynsemi einnig láta ráða. Ástæðan fyrir því að við Logi fórum af stað með þetta verkefni er sú að fram til þessa hafa menn verið að tuða hver í sínu horni um að staðan í miðbænum væri ekki nógu góð en hins vegar hefur ekkert verið gert í málinu. Við viljum með þessu framtaki snúa vörn í sókn, ásamt öðrum sem að málinu koma," sagði Ragnar.

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, sagði að sér litist mjög vel á hugmyndir áhugahópsins og lýsir yfir stuðningi við þá vinnu sem hagsmunaaðilar í miðbænum hafa greinilega þegar hafið. "Ég hef hitt forsvarsmenn þeirra og lýst yfir fullum samstarfsvilja bæjarins við þetta verkefni. Grundvallaratriði í mínum huga er að þessi fyrirtæki og stofnanir sem þarna er um að ræða hafi forgöngu um það að þessi verk séu unnin og bæjarfélagið á að sjálfsögðu að spila með þeim í því verki," sagði bæjarstjóri.

Ragnar sagði að upphaf málsins mætti rekja til aðalfundar Sparisjóðs Norðlendinga í lok mars en þar var samþykkt að leggja fjármagn í verkefnið en aðrir komu svo í kjölfarið, ný síðast Kaupfélag Eyfirðinga. Ragnar lagði fram tillögu á aðalfundi KEA í vikunni, þess efnis að félagið legði fram 6 milljónir króna til verkefnisins, eða tvær milljónir króna á ári næstu þrjú árin og var hún samþykkt. Ragnar sagðist vera stoltur yfir því hversu vel tillögu sinni var tekið á aðalfundi KEA og hann er einnig mjög ánægður með þau viðbrögð sem hann hefur fengið hjá fulltrúum annarra fyrirtækja, sem og bæjaryfirvöldum. "Það eru allir sammála um að það hafi þurft að vekja menn af værum blundi. Helsti ókostur okkar Akureyringa í gegnum tíðina er sjálfumgleði. Við erum svo glaðir og ánægðir með okkur að við höfum gleymt að gagnrýna okkur. Við erum bestir í mörgu en það er margt sem má betur fara og það er kominn tími til að snúa hlutunum við og fara að gera eitthvað áþreifanlegt," sagði Ragnar.