Það gæti verið við hæfi að kneyfa íslenskt brennivín á meðan framlag Íslands er flutt í Istanbul.
Það gæti verið við hæfi að kneyfa íslenskt brennivín á meðan framlag Íslands er flutt í Istanbul. — Morgunblaðið/Golli
Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er jafnöruggt merki um að sumarið sé á næsta leiti og að lóan og krían séu mættar hingað norður í Atlantshafið. Víkverji hefur alltaf haft lúmskt gaman af þessari keppni og öllu því sem henni fylgir.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva er jafnöruggt merki um að sumarið sé á næsta leiti og að lóan og krían séu mættar hingað norður í Atlantshafið. Víkverji hefur alltaf haft lúmskt gaman af þessari keppni og öllu því sem henni fylgir. Hann hefur ekki heyrt framlag Íslendinga til keppninnar að þessu sinni en er viss um að Jónsi á eftir að verða landi og þjóð til sóma.

Á þessu kvöldi eru haldin "Eurovison-partí" um allt land og um alla álfuna, því það eru ekki bara Íslendingar sem flykkjast að sjónvarpsskjánum þetta kvöld. Víkverji hefur fylgst með keppninni í hinum ólíklegustu löndum, Belgíu, Frakklandi, Makedóníu og Kúbu. Eðli málsins samkvæmt var lítið um keppnina fjallað á Kúbu, en Víkverji hefur komist að því að smáþjóðir, eða fólk sem er víðs fjarri heimkynnunum sínum, eru fyrst og fremst þeir sem fylgjast með þessari keppni. Þannig var mikill áhugi fyrir keppninni í Makedóníu. Makedónar komast, eins og Íslendingar, sjaldan í sjónvarp erlendis og hafa því mikinn áhuga á því hvernig þeirra fólki reiðir af. Í Frakklandi hafði enginn áhuga nema útlendingar sem ekki voru heima hjá sér og sömu sögu má segja af Belgíu. Þar komst Víkverji reyndar í ótrúlega skemmtilegt "Eurovision-partí", skipulagt einmitt af partíljóni sem var langt að heiman. Í þessu partíi voru saman komnir einstaklingar víðs vegar að úr heiminum, sem gerði keppnina óneitanlega meira spennandi. Annað sem gerði partíið eftirminnilegt var að húsráðandi hafði þá reglu að gestir hans skyldu drekka þjóðardrykk hvers lands á meðan lagið hljómaði. Þannig var bergt á rauðvíni þegar Frakkar spreyttu sig, bjór meðan Belgar kyrjuðu sitt lag og Ouzo meðan Grikkir sýndu hvað í þeim bjó. Stundum voru gestirnir ekki vissir hvað væri við hæfi og þá drukku þeir bara það sem þá langaði í. Reyndar myndu fæstir mæla með drykkju af þessu tagi, þar sem hún er ávísun á mikinn hausverk og timburmenn og ekki víst að fólk haldi rænu út kvöldið. En þetta var óneitanlega mikið stuð.

Víkverji rakst á ótrúlega spaugilegan þátt í Ríkissjónvarpinu fyrr í þessari viku. Þar voru saman komnir spekúlantar Norðurlandanna, sem ræddu möguleika hvers lags. Það var eitthvað svo yndislegt og súrrealískt við það að heyra þessar þjóðir ræða Eurovision-lög af fullri alvöru á norsku, sænsku og dönsku þótt viðstaddir virtust hafa nokkurn húmor fyrir keppninni.