TALSMENN Bandaríkjahers sögðu í gær að drög að samkomulagi lægju fyrir um að bandarískir hermenn hyrfu frá borginni Fallujah, vestur af Bagdad, og að í staðinn tækju vopnaðar sveitir Íraka við hlutverki öryggissveita í borginni.

TALSMENN Bandaríkjahers sögðu í gær að drög að samkomulagi lægju fyrir um að bandarískir hermenn hyrfu frá borginni Fallujah, vestur af Bagdad, og að í staðinn tækju vopnaðar sveitir Íraka við hlutverki öryggissveita í borginni. Fregnir bárust þó áfram af bardögum í borginni.

Athygli vöktu þær yfirlýsingar Brennans Byrne, yfirforingja í Bandaríkjaher, að írösku sveitirnar, sem gert væri ráð fyrir að færu inn í Fallujah, yrðu að mestu skipaðar Írökum sem áður voru liðsmenn hers Saddams Husseins og sem hefðu "reynslu af hernaði" í þessum hluta Íraks. Sagði Byrne að fyrir sveitunum myndi fara fyrrverandi hershöfðingi úr íraska hernum, Salah.

Tíu bandarískir hermenn voru annars sagðir hafa fallið í Írak í gær, þar af átta þegar sprengja sprakk á þjóðveginum sunnan við Bagdad. Ekki höfðu borist fréttir af mannfalli í Fallujah.

Ný Gallup-könnun leiðir í ljós að 57% Íraka vilja að bandarískar og breskar hersveitir yfirgefi landið "þegar í stað, innan fárra mánaða". 36% sögðust vilja að þær yrðu í landinu lengur til að tryggja öryggi íbúanna. Sjö af hverjum tíu sögðust telja að líf þeirra og ættingja þeirra væri í hættu ef þau tíðindi bærust út meðal Íraka að viðkomandi ættu samstarf við Bandaríkjamenn.

Fallujah, Washington. AP.