SKOTVEIÐIFÉLAG Íslands (SKOTVÍS) hefur sótt um styrk í veiðikortasjóð til þess að fá erlenda sérfræðinga til að yfirfara rjúpnarannsóknir Náttúrufræðistofnunar og rannsóknaráætlanir og vonast eftir svari umhverfisráðuneytisins fyrir 1. maí.

SKOTVEIÐIFÉLAG Íslands (SKOTVÍS) hefur sótt um styrk í veiðikortasjóð til þess að fá erlenda sérfræðinga til að yfirfara rjúpnarannsóknir Náttúrufræðistofnunar og rannsóknaráætlanir og vonast eftir svari umhverfisráðuneytisins fyrir 1. maí. Þá telur félagið veiðikortasjóð vera að hruni kominn vegna rjúpnaveiðibannsins.

Veiðibann ekki góð aðferð

Sigmar B. Hauksson, formaður félagsins, segir rjúpnaveiðibann mjög umdeilt, bæði af hálfu annarra náttúrufræðinga, s.s vísindamanna á Hafrannsóknastofnun og svo annarra fuglafræðinga á borð við dr. Arnór Þór Sigfússon og prófessor Arnþór Garðarsson. "Við höfum rætt þetta við erlenda fuglafræðinga. Þeir virðast vera sammála um að þetta sé ekki góð aðgerð. Eftir því sem liðið hefur á veturinn hafa menn orðið meira gagnrýnir á þessar niðurstöður og rannsóknir. Við viljum því fá erlenda fuglafræðinga, sem eru með reynslu á þessu sviði, til að yfirfara þessar rannsóknir."

Sigmar segir veiðikortasjóð, sem fjármagnaður er með veiðikortafé frá veiðimönnum, vera að hruni kominn. "Það er 25% samdráttur í fjárstreymi í sjóðinn. Frá árinu 1995 hefur sjóðurinn gefið um 100 milljónir. En við lítum ekki síður á að veiðikortasjóður sé geysilega mikilvægur gagnagrunnur. Við höfum ekki betri gagnagrunn um veiðidýr en veiðikortasjóðinn. Núna þegar menn í fyrsta lagi senda ekki upplýsingar í hann og svo í öðru lagi þegar brögð eru að því að menn sendi inn rangar upplýsingar þá er sjóðurinn bæði óvirkur sem gagnagrunnur og lamaður fjárhagslega. Þannig að þegar upp er staðið verður tjónið af rjúpnaveiðibanninu meira en ávinningurinn."