— Morgunblaðið/Júlíus
SLÖKKVILIÐSMENN æfðu í gær viðbrögð við eiturefnaslysi á námskeiði fyrir slökkviliðsmenn í Hafnarfirði. Sett var á svið slys þar sem tunna með klór átti að hafa dottið af vörubílspalli og farið að leka og gasský að myndast af völdum klórsins.
SLÖKKVILIÐSMENN æfðu í gær viðbrögð við eiturefnaslysi á námskeiði fyrir slökkviliðsmenn í Hafnarfirði. Sett var á svið slys þar sem tunna með klór átti að hafa dottið af vörubílspalli og farið að leka og gasský að myndast af völdum klórsins. Æfingin gekk út á það að æfa viðbrögðin allt frá því að slökkviliðið fékk tilkynningu þar til búið var að hreinsa vettvanginn. Bílstjóri vörubílsins reyndist meðvitundarlaus á jörðinni þegar að var komið og þurftu slökkviliðsmennirnir að skola eiturefnin af honum og reyna svo að stöðva lekann og hreinsa upp, segir Birgir Finnsson, framkvæmdastjóri útkallsdeildar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS). Brunamálaskólinn hefur staðið fyrir námskeiðinu Atvinnuslökkviliðsmaður fyrir slökkviliðsmenn sem hófu störf á árunum 2000 til 2002, og setti SHS á svið þrenns konar slys í gær, umferðarslys, bruna og eiturefnaslys, sem þátttakendur á námskeiðinu glímdu við.