SAMIÐN og Samtök atvinnulífsins undirrituðu nýjan kjarasamning á níunda tímanum í gærkvöld. "Ég er þokkalega sáttur.

SAMIÐN og Samtök atvinnulífsins undirrituðu nýjan kjarasamning á níunda tímanum í gærkvöld. "Ég er þokkalega sáttur. Við þurfum að taka mið af samningum sem hafa verið gerðir og þeir rammað okkur svolítið mikið inn," sagði Finnbjörn Hermannsson, formaður Samiðnar, í gærkvöld.

Samninganefnd Samiðnar lagði áherslu á að minnka bilið á milli launataxta og raunverulegra launa. Finnbjörn segist hafa orðið var við misnotkun þannig að erlendum starfsmönnum er borgað samkvæmt töxtum þótt fáir innlendir félagsmenn séu á þeim launum í raun. Taxtarnir séu bara notaðir sem lágmarkstaxtar.

Hæsti taxtinn í 163.000 krónur

Við undirskrift samnings hækka laun félagsmanna Samiðnar um 3,25%. Finnbjörn nefnir sem dæmi að hæsti taxtinn hækki úr 134 þúsundum í 163 þúsund krónur. Það þýði þó ekki að allir hækki svo mikið þar sem taxtarnir færist nær raunlaunum.

Samningurinn er nú kynntur félagsmönnum sem síðan samþykkja hann eða hafna. Það verður að gerast innan 28 daga frá undirritun. Innan Samiðnar eru byggingarmenn, málmiðnaðarmenn, bíliðnamenn, netagerðarmenn, garðyrkjumenn og hárgreiðslufólk. Þessi samningur snertir fimm þúsund manns.

Finnbjörn á von á því að þessir samningar verði samþykktir af félagsmönnum. "Það var samhljómur innan allra félaganna hjá okkur að færa taxtana upp og okkur tókst það allverulega. Ég á von á því að menn séu sáttir við það."