George Michael hefur löngum samið útvarpsvæna tónlist.
George Michael hefur löngum samið útvarpsvæna tónlist. — Reuters
BRESKI popptónlistarmaðurinn George Michael hefur verið útnefndur konungur ljósvakans en hann er sá listamaður, sem oftast hefur heyrst í útvarpi á Bretlandi á síðustu 20 árum. Michael, sem hóf feril sinn með söngsveitinni Wham!

BRESKI popptónlistarmaðurinn George Michael hefur verið útnefndur konungur ljósvakans en hann er sá listamaður, sem oftast hefur heyrst í útvarpi á Bretlandi á síðustu 20 árum.

Michael, sem hóf feril sinn með söngsveitinni Wham! fyrir tveimur áratugum, skaut þar með tónlistarmanninum Elton John ref fyrir rass, að sögn stofnunarinnar Phonographic Performance Ltd. sem gerði könnunina. Meðal vinsælla laga Michels eru "Wake Me Up Before You Go-Go", "Careless Whisper"og "Faith". Söngvarinn Robbie Williams var þriðji á listanum, ástralska söngkonan Kylie Minogue í 4. sæti og kanadíski rokkarinn Bryan Adams var fimmti.

Breska útvarpsakademían veitti Michael viðurkenningu af þessu tilefni.

"Ég trúi þessu ekki. Ég hef aðeins gert sex plötur á 22 árum og ég veit því ekki hvernig þetta hefur getað gerst. Ég er hamingjusamasti lagahöfundur í heimi," sagði Michael í gær þegar honum voru færð þessi gleðitíðindi.