Ekki hræddur við Kína Finnbogi Jónsson í ræðustóli.
Ekki hræddur við Kína Finnbogi Jónsson í ræðustóli.
FINNBOGI Jónsson, formaður stjórnar Samherja, telur að Kína sé engin raunveruleg ógn við Íslendinga hvað varðar þróun fiskvinnslu, en umræður hafa verið töluverðar á liðnu hausti um áhrif fiskvinnslu í Kína á sjávarútveg hér á landi.

FINNBOGI Jónsson, formaður stjórnar Samherja, telur að Kína sé engin raunveruleg ógn við Íslendinga hvað varðar þróun fiskvinnslu, en umræður hafa verið töluverðar á liðnu hausti um áhrif fiskvinnslu í Kína á sjávarútveg hér á landi.

Finnbogi sagði yfirburði Kínavinnslunnar vissulega mikla hvað varðar nýtingu og vinnulaun. "Þessi vinnsla er hins vegar algjörlega háð framboði sem Kínverjar hafa ekki stjórn á og auk þess má gera ráð fyrir að vaxandi kröfur um rekjanleika lokavörunnar muni hamla þessum viðskiptum. Afar erfitt er að halda öllum gögnum til haga þegar um svo flókið ferli er að ræða," sagði Finnbogi. Hann nefndi að talið væri að lítill hagnaður væri af þessari vinnslu fyrir Kínverja sjálfa og almennt væri vitað að þeir stefndu í auknum mæli að verksmiðjuvinnslu hjúpaðra afurða í samkeppni við verksmiðjur í Evrópu og Bandaríkjunum. Til lengri tíma mætti því búast við að samkeppnin beindist gegn slíkum verksmiðjurekstri fremur en fiskvinnslu á Íslandi. "Það er því ekki víst að okkur Íslendingum stafi ógn af Kína. Þvert á móti getur Kína gefið okkur ákveðin tækifæri, svo sem að fullvinna kolmunna," sagði Finnbogi. Kolmunni væri góður hvítfiskur sem eflaust mætti nýta í meira mæli til að þjóna þeim hluta markaðarins sem kysi ódýrari fiskafurðir.

Sölufyrirtæki á villigötum?

Hann sagði íslenska sjávarútveginn eiga að þjóna öðrum hluta markaðarins en Kína gerði. "Ég velti því satt best að segja stundum fyrir mér hvort hin svokölluðu stóru sölufyrirtæki okkar í sjávarútvegi hafi verið á villigötum varðandi sölu á íslensku sjávarfangi. Sókn þeirra á erlendum mörkuðum hefur að stórum hluta falist í kaupum á erlendum verksmiðjurekstri. Ekki getur það verið rétta leiðin fyrir íslenskt úrvalssjávarfang að mæta þeim örlögum að vera hjúpað inn í eitthvert deig eða brauðgums sem tryggir að allur ferskleiki og fegurð fari forgörðum," sagði Finnbogi. "Við eigum að mæta vaxandi kröfum viðskiptavina um hollar og góðar matvörur sem er fljótlegt að matreiða og eru fallegar á diski. Við eigum ekki bara að selja fisk, heldur lausnir."