HAGNAÐUR Landsbankans á fyrsta fjórðungi ársins nam 4.094 milljónum króna og fimmfaldaðist milli ára. Hagnaður bankans hefur aldrei verið meiri, jafnvel þótt borið sé saman við heilt ár en ekki einn fjórðung.

HAGNAÐUR Landsbankans á fyrsta fjórðungi ársins nam 4.094 milljónum króna og fimmfaldaðist milli ára. Hagnaður bankans hefur aldrei verið meiri, jafnvel þótt borið sé saman við heilt ár en ekki einn fjórðung. Arðsemi eigin fjár var 93% reiknað á ársgrundvelli, en arðsemi alls ársins í fyrra var 18%.

Mesta breytingin milli ára liggur í aukningu gengishagnaðar úr 325 milljónum króna í 4.221 milljón króna. Þetta er aukning um 3.896 milljónir króna, sem jafngildir næstum allri aukningu hagnaðar fyrir skatta. Hagnaður fyrir skatta nam 5.053 milljónum króna og jókst um 4.132 milljónir króna milli ára.

Vaxtamunur minnkar

Hreinar vaxtatekjur, vaxtatekjur að frádregnum vaxtagjöldum, námu 2.915 milljónum króna og jukust um 40% milli ára. Þrátt fyrir þessa aukningu minnkaði vaxtamunur, sem er hlutfallið á milli hreinna vaxtatekna og meðalstöðu heildarfjármagns, úr tæpum 3,0% á fyrsta fjórðungi fyrra árs í 2,4% nú, en fyrir allt árið í fyrra var vaxtamunur 2,6%.

Ástæða þess að vaxtamunur minnkaði þrátt fyrir auknar hreinar vaxtatekjur er að heildareignir bankans hafa aukist mikið. Þær námu 511 milljörðum króna í lok mars í ár, sem er 14% aukning frá áramótum og 84% aukning frá ársbyrjun 2003, en þá voru heildareignir bankans 278 milljarðar króna.

Rekstrartekjur bankans ríflega þrefölduðust og námu 6.397 milljónum króna og þar af nam gengishagnaður 4.221 milljón eins og áður sagði, en af honum skilaði hækkun hlutabréfa bankans 3.542 milljónum króna. Þóknunartekjur nær tvöfölduðust og námu 2.406 milljónum króna.

Hreinar rekstrartekjur jukust um 130% milli ára og námu 9.313 milljónum króna á fysta fjórðungi þessa árs.

Framlag í afskriftareikning útlána jókst um 26% og nam 991 milljón króna. Framlagið er 1,05% af útlánum í lok mars og hefur lækkað úr 1,47% frá því árið 2003. Afskriftareikningur útlána var 2,0% af útlánum og veittum ábyrgðum en um áramót var þetta hlutfall 3,3%.

Eins og áður sagði jukust heildareignir Landsbankans um 14% á tímabilinu. Útlán jukust um 18% og námu 385 milljörðum króna og innlán jukust um 20% og námu 182 milljörðum króna.

Eigið fé bankans nam 30 milljörðum króna í lok mars og jókst um þriðjung frá áramótum. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum var 11,0% í lok mars en 9,9% um áramót. Eiginfjárhlutfallið hefur aldrei verið hærra.

Í tilkynningu frá Landsbankanum segir að markaðsaðstæður hafi haldist hagstæðar á fyrsta fjórðungi ársins og að bankinn hafi styrkt stöðu sína á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Ef hlutabréfaverð haldist stöðugt út árið megi reikna með að arðsemi bankans verði umtalsvert betri en markmið hans segi til um, en bankinn stefnir að því að arðsemi eigin fjár eftir skatta sé á bilinu 15%-17%.