AFKOMA Landsbankans var í samræmi við spár greiningardeilda hinna bankanna tveggja, sem voru nokkuð samstiga og spáðu honum að meðaltali tæplega 4,1 milljarðs króna hagnaði. Verð hlutabréfanna breyttist ekki í gær, en Úrvalsvísitalan lækkaði um tæp 0,9%.

AFKOMA Landsbankans var í samræmi við spár greiningardeilda hinna bankanna tveggja, sem voru nokkuð samstiga og spáðu honum að meðaltali tæplega 4,1 milljarðs króna hagnaði. Verð hlutabréfanna breyttist ekki í gær, en Úrvalsvísitalan lækkaði um tæp 0,9%.

Það sem vekur mesta athygli í uppgjörinu er gríðarlegur gengishagnaður, sem skýrir nánast allan afkomubata bankans milli ára. Þessi mikli gengishagnaður veldur því að kostnaðarhlutfall bankans lækkar mikið, eða úr 58% á fyrsta fjórðungi í fyrra í 35% á fyrsta fjórðungi í ár. Þetta er mun lægra hlutfall en menn eiga að venjast í íslenskum bönkum og þótt víðar væri leitað.

Burðarás vegur þungt

Ef gengishagnaðurinn er tekinn út, auk þess að taka tillit til aukins vaxtakostnaðar vegna aukinnar hlutabréfaeignar og óreglulegra tekna vegna sölu á VÍS í fyrra, blasir önnur mynd við. Hlutfallið hefur að vísu lækkað nokkuð þegar leiðrétt er fyrir þessum þáttum, en minna en ella og er um 60%.

Stærstur hluti gengishagnaðarins er vegna hlutabréfa, um 3,5 milljarðar króna, og stærstur hluti þess gengishagnaðar, um 2,5 milljarðar króna, er vegna eignar Landsbankans í Burðarási.

innherji@mbl.is