AFKOMA Össurar hf. á fyrsta fjórðungi þessa árs er töluvert yfir meðalspá greiningardeilda bankanna, sem gerði ráð fyrir að hagnaður félagsins yrði 93 milljónir íslenskra króna.

AFKOMA Össurar hf. á fyrsta fjórðungi þessa árs er töluvert yfir meðalspá greiningardeilda bankanna, sem gerði ráð fyrir að hagnaður félagsins yrði 93 milljónir íslenskra króna. Niðurstaðan varð um 230 milljónir, eða rúmlega tvöfalt meiri hagnaður en meðalspáin gerði ráð fyrir. Sú greiningardeild sem spáði bestri afkomu félagsins gerði ráð fyrir að hagnaðurinn yrði 132 milljónir.

Ljóst er af uppgjöri Össurar að félagið hefur ekki orðið fyrir óvæntum kostnaði vegna samþættingar starfseminnar við Generation II fyrirtækin, sem keypt voru á síðasta ári. Í fyrra settu óvenjulegir gjaldaliðir nokkuð mark sitt á afkomu félagsins, s.s. málarekstur og kostnaður við endurskipulagningu og starfslokasamninga. Þessu er ekki fyrir að fara nú. Þá er jákvætt að rannsóknar- og þróunarkostnaður félagsins hefur lækkað, var 10% af sölu á síðasta ári en 8% á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Kostnaðurinn hefur m.a. lækkað vegna hagræðingar og þess að stórum þróunarverkefnum er að ljúka eða er lokið.

Uppgjör Össurar var birt fyrir hádegi í gær og voru fyrstu viðbrögð markaðarins þau að gengi hlutabréfa í félaginu hækkuðu strax. Lokaverðið í Kauphöll Íslands í gær var 57,00, sem er 6,5% hækkun frá deginum áður, en gengi bréfanna hækkaði mest allra félaga í Kauphöllinni í gær.

innherji@mbl.is