Ráðherraræði? Fjölmiðlar birtu nýlega þá frétt að ríkisstjórnin hefði samþykkt lagafrumvarp.

Ráðherraræði?

Fjölmiðlar birtu nýlega þá frétt að ríkisstjórnin hefði samþykkt lagafrumvarp. Það fylgdi fréttinni að ráðherra hefði skipað nefnd til að athuga viðkomandi málefni, nefndin hefði skilað ráðherra skýrslu um verkefni sitt og ríkisstjórnin samið frumvarp á grundvelli skýrslunnar og síðan samþykkt sitt eigið frumvarp! Þingmenn svöruðu aðspurðir að þeir hefðu hvorki séð skýrsluna né frumvarpið. Síðar kom frétt þess efnis að ríkisstjórnin hefði lagt málið fyrir stuðningsflokka sína. Þegar þetta er skrifað hefur frumvarpið enn ekki verið lagt fyrir alþingi.

Er það svo að ríkisstjórnin álíti Alþingi aðeins máttlausa kjaftastofnun sem gerir það eitt sem henni er sagt? Ég hélt að við byggjum við þingræði. Ef svo væri hefði Alþingi skipað nefnd til að kanna málið. Nefndin skilað þinginu skýrslu og alþingi látið semja lagafrumvarp sem það hefði síðan afgreitt sem lög frá Alþingi og sent ríkisstjórninni sem framkvæmdastjórn þingsins. Allt vekur þetta þá spurningu hvort við búum við ráðherraræði en ekki þingræði?

Jón frá Pálmholti.

Þyrnar og rósir

ER einhver sem getur útvegað mér bókina Þyrna og rósir eftir Ágúst Jónsson, útg. 1930. Þeir sem gætu liðsinnt mér hafi samband við Einar Má í síma 8691230.

Frábær þjónusta

ÉG fékk mjög góða þjónustu hjá Margréti sem vinnur hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hún upplýsti mig um ýmislegt sem ég ekki vissi áður. Vil ég þakka henni mikla kurteisi og frábæra þjónustu.

Ívar.

Hringurinn og stúlkan

Sl. þriðjudag hringdi ung stúlka á Lögreglustöðina í Kópavogi og var hún að spyrjast fyrir um hring sem hún týndi. Hringurinn hafði ekki fundist en síðdegis sama dag var komið með hring á lögreglustöðina sem líklega er hringurinn sem stúlkan var að leita að. Er því stúlkan beðin að hafa aftur samband við lögregluna í Kópavogi.

Snúra er týnd

SNÚRA er 5 mánaða kettlingur, læða, hvít með röndótt skott og bröndóttan blett á höfði milli eyrna.

Hún týndist frá Dalbrekku í Kópavogi 26. apríl sl. Þeir sem hafa orðið varir við hana hafi samband í síma 5542090 eða 6985472.