Í MORGUNBLAÐINU er kveðið fast að orði í leiðaraskrifum dagana 3. og 22. apríl. "Áfengi hefur verið þjóðarböl á Íslandi og er það enn".

Í MORGUNBLAÐINU er kveðið fast að orði í leiðaraskrifum dagana 3. og 22. apríl.

"Áfengi hefur verið þjóðarböl á Íslandi og er það enn". Morgunblaðið hvetur Alþingi í þessum orðum að hvika hvergi frá markmiðum sem sett voru fyrir þremur árum "enda eru þau heilbrigð og eðlileg". Varað er við því að aðgengi að áfengi í verslunum verði gert auðveldara og lýst yfir áhyggjum yfir tveimur frumvörpum sem liggja fyrir Alþingi og virðast ganga þvert á þau markmið sem þingið sjálft setti.

Leiðaraskrif Morgunblaðsins, laugardaginn 3. apríl, fjallaði um glórulausa afgreiðslu Borgarráðs og Hverfisráðs í Grafarvogi um að mæla með vínveitingaleyfi til veitingastaðar sem staðsettur er á milli anddyris og leikvangs, inni í hinu glæsilega íþróttamannvirki Egilshöll. Börn og unglingar sækja að meirihluta þessa glæsilegu íþróttahöll enda mannvirkið byggt til að skapa unga fólkinu okkar fullkomnar aðstæður til íþróttaæfinga. "Áfengi og íþróttir eiga enga samleið" segir í leiðara Morgunblaðsins. Það er hálf-niðurlægjandi að ritstjórar Morgunblaðsins þurfi að áminna þá sem ábyrgðina hafa, þ.e. borgarfulltrúa, þegar starf og stefna íþróttahreyfingarinnar, foreldrasamtaka og skólamanna kveður á um hið gagnstæða.

Það er dapurlegt að fylgjast með félögum mínum, nýkjörnum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á Alþingi, berjast fyrir frumvörpum um lækkun aldurs til áfengiskaupa og að leyft verði að selja áfengi í matvöruverslunum hér á landi. Hefur áfengisbölið gersamlega farið framhjá þessum "hugsjónamönnum" eða átta þeir sig ekki á því að "frelsi getur snúizt upp í andhverfu sína" eins og Morgunblaðið minnir alþingismenn á í leiðaraskrifum?

Ég vona að eldri og reyndari þingmenn og leiðtogar þjóðarinnar sjái til þess að glapræði áðurnefndra frumvarpa nái ekki fram að ganga.

Sem foreldri og skólamaður vil ég þakka ritstjórum Morgunblaðsins fyrir þeirra árvekni í leiðaraskrifum á sama tíma og hætta virðist á að nokkrir af kjörnum alþingismönnum og borgarfulltrúum "fljóti sofandi að feigðarósi".

HELGI ÁRNASON,

skólastjóri Rimaskóla.

Frá Helga Árnasyni: