Selma Guðmundsdóttir
Selma Guðmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari mun syngja hlutverk Óðins í Rínargullinu eftir Wagner í Þýskalandi í haust og er hann, að því best er vitað, fyrstur Íslendinga til að syngja þetta krefjandi hlutverk. Silja Björk Huldudóttir ræddi við Bjarna Thor og Selmu Guðmundsdóttur, formann Richard Wagner félagsins á Íslandi.

Bjarni Thor Kristinsson bassasöngvari mun syngja hlutverk Óðins í fyrstu óperu Niflungahringsins, Rínargullinu, eftir Richard Wagner í Óperuleikhúsinu í Karlsruhe í Þýskalandi á næsta leikári. Um er að ræða eitt af stærstu hlutverkum óperunnar og er Bjarni Thor, að því best er vitað, fyrstur Íslendinga til að takast á við þetta hlutverk. Stefnt er að því að frumsýna í október næstkomandi og sýna átta til tíu sýningar sem dreifast jafnt yfir veturinn.

"Ég er fullur tilhlökkunar, enda er þetta eitt af þessum stóru hlutverkum sem maður kemst í sem bassasöngvari," sagði Bjarni Thor þegar Morgunblaðið leitaði viðbragða hjá honum. Að sögn Bjarna Thors er fyrirhugað að setja allan Niflungahringinn upp í óperuleikhúsinu í Karlsruhe á næstu misserum. "Enn sem komið er hef ég aðeins gert samning um að syngja í fyrstu óperunni, Rínargullinu, og ætla að láta það ráðast af því hvernig mér gengur hvort ég syng hlutverkið í hinum óperunum líka, þ.e. Valkyrjunni og Sigurði Fáfnisbana" segir Bjarni Thor. Spurður um tildrög þess að hann syngur hlutverk Óðins segist Bjarni Thor hafa verið að syngja í Niflungahringnum í janúar sl. "Þá söng ég hlutverk Fáfnis bæði í Rínargullinu og Sigurði Fáfnisbana. Meðan ég var að undirbúa þessar sýningar fór ég að gefa Óðni hýrt auga og setti því umboðsskrifstofu mína í málið og í framhaldinu fékk ég síðan tilboðið frá Karlsruhe."

Gæti opnað fyrir mér nýjar dyr

Aðspurður hvaða þýðingu það hafi að syngja hlutverk Óðins segir Bjarni Thor það einfaldlega verða að koma í ljós. "Þetta er alla vegana hlutverk sem ég veit að ég á eftir að hafa mjög gaman af að syngja. Hlutverk Óðins er gríðarlega stórt, eitt af burðarhlutverkunum í Hringnum, og krefjandi eftir því. Auk þess sem raddumfang hlutverksins er mikið, enda telst þetta frekar hátt bassahlutverk hvað tónhæð varðar. Raunar er hlutverkið flokkað sem hetju-barítonhlutverk þótt það sé stundum sungið af bössum með góða hæð. Heppnist þessi fyrstu kynni mín af Óðni opnast fyrir mér nýjar dyr og ég verð að sjá til hversu langt ég hætti mér inn um þær. Það er ákveðin áhætta að syngja Wagnerhlutverk af þessari gerð því röddin verður að vera tilbúin auk þess sem ekki er svo auðveldlega aftur snúið í léttari hlutverk."

Aðspurður segist Bjarni Thor hafa sungið svolítinn Wagner í gegnum tíðina. "Ég er t.d. búinn að vera að syngja hlutverk Dalands í Hollendingnum fljúgandi, Pogner í Meistarasöngvurunum, Fáfni í Hringnum og Titurel í Parsifal. Og það eru sífellt að bætast við ný hlutverk. Það má í raun segja að það sé nokkurt bassahallæri í heiminum í dag og er afleiðingin sú að við ungu strákarnir í bransanum fáum mun fyrr en ella tækifæri til að syngja þessi stóru hlutverk." Inntur eftir því hvað annað sé framundan hjá sér segist Bjarni Thor m.a. munu syngja hlutverk Dalands í Hollendingnum fljúgandi í Róm í nóvember nk. og hlutverk Gurnemanz í Parsifal í konsertútgáfu með Sinfóníuhljómsveit Berlínar undir stjórn Kent Nagano. "Ég syng síðan á tónleikum með eiginkonu minni Eteri Gvazava sópransöngkonu, Jónasi Ingimundarsyni píanóleikara og Karlakórnum Fóstbræðrum á Listahátíð núna í maí. Þar verður margt áhugavert á dagskrá þó Óðinn og aðrir félagar Wagners verði fjarri góðu gamni."

Íslenskir bassar virðast henta vel fyrir ýmis Wagner-hlutverk

Að sögn Selmu Guðmundsdóttur, formanns Richard Wagner félagsins á Íslandi, er Bjarni Thor líklega fyrstur Íslendinga til að syngja hlutverk Óðins. "Það er okkur mikil ánægja að vera búin að fá íslenskan Óðin," segir Selma og rifjar upp að þegar Niflungahringurinn var settur upp í styttri úgáfu á Listahátíð í Reykjavík árið 1994 hafi sérstök áhersla verið lögð á að reyna að manna öll sönghlutverkin íslenskum söngvurum. "Okkur tókst að fá Íslendinga í öll hlutverkin nema í hlutverk Óðins, Brynhildar og Sigurðar, enda ekki á færi allra að syngja þessi erfiðu hlutverk. Þetta er því mikill viðburður að fá loksins íslenskan Óðin, ekki síst í ljósi þess að Wagner sækir söguefni Niflungahringsins í íslenskar fornbókmenntir, einkum Eddurnar."

Aðspurð segir Selma hlutverk Óðins án nokkurs vafa vera stærsta hlutverkið í Rínargullinu þannig að það mæði mikið á viðkomandi söngvara. "Hlutverkið gerir mjög miklar kröfur raddlega séð, en það á reyndar við um öll þessi stóru Wagner-hlutverk. Oft skrifar Wagner hlutverkin þannig að þau krefjast alveg sérstakra radda, þar sem t.d. tónsviðið fer út fyrir þessi venjulegu mörk raddtegunda og tónlegan er oft erfið. Einnig þarf mikinn raddstyrk til að ná gegnum þykkan hljómsveitarvefinn. Þetta er náttúrlega líka heilmikill texti sem þarf að koma til skila auk þess að söngvarar þurfa að gera hlutverkunum góð leikræn skil. Þar sem óperur Wagners eru oft á tíðum mun lengri, jafnvel helmingi lengri, en t.d. venjuleg Verdi- eða Pucciniópera krefjast Wagner-hlutverkin einnig mun meira úthalds."

Að sögn Selmu fer árlega alltaf hópur félaga í Richard Wagner félaginu, sem í eru um tvö hundruð félagsmenn, til útlanda til að hlýða á flutning á óperum Wagners. "Stutt er síðan félagið okkar fór í hópferð til Parísar til að sjá og heyra Kristin Sigmundsson syngja hlutverk Gurnemanz Parsifal, en í þessari sömu sýningu söng Guðjón Óskarsson hlutverk Titurels. Á hverju ári fer síðan hópur Íslendinga á Wagnertónlistarhátíð sem haldin er árlega í litilli borg sem nefnist Bayreuth í Þýskalandi, en þar byggði Wagner sjálfur óperuhús."

Aðspurð hvort Richard Wagner félagið muni efna til hópferðar til Karlsruhe til að sjá Bjarna Thor svarar Selma því játandi. "Ég er ekki í vafa um að við munum reyna að fara til Karlsruhe að sjá Bjarna Thor, enda er hann afburða söngvari, og mér finnst það virkilega þess virði til að sjá íslenskan Óðin."

Selma segir íslenska söngvara almennt syngja mikinn Wagner. "Það eru þá ekki síst þessar dökku raddir. Það virðist nokkuð áberandi hvað við eigum mikið af bassaröddum sem henta vel fyrir ýmis Wagner-hlutverk. Þá nefni ég söngvara á borð við Kristin Sigmundsson, Bjarna Thor Kristinsson, Viðar Gunnarsson, Guðjón Óskarsson og Magnús Baldvinsson. Allir þessir söngvarar hafa sungið mörg mismunandi hlutverk í Wagneróperum víða um heim. Raunar eigum við líka mjög góða tenórsöngvara sem syngja Wagner og má þar m.a. nefna Kolbein Ketilsson sem er að fara að takast á við hlutverk Tristans í óperunni um Tristan og Ísold í París á næsta ári, en það er eitt af stærri tenórhlutverkum Wagners. Þar mun hann syngja á móti stórstjörnunni Waltraud Meier. Ekki má svo gleyma íslensku söngkonunum, s.s. Magneu Tómasdóttur, sem sungið hefur Sentu í Hollendingnum fljúgandi hér heima og erlendis, og Helgu Rós Indriðadóttur, sem söng nýverið í Niflungahringnum í Stuttgart," segir Selma Guðmundsdóttir að lokum.

silja@mbl.is