Dansinn dunar: Ingunn Margrét Hallgrímsdóttir danskennari með yngsta hópnum í Grímsey.
Dansinn dunar: Ingunn Margrét Hallgrímsdóttir danskennari með yngsta hópnum í Grímsey. — Morgunblaðið/Helga Mattína
Grímsey | Mikil gleði ríkti í félagsheimilinu Múla um tíma fyrir skemmstu, danstímar oft á dag og hjá ýmsum aldurshópum. Ingunn Margrét Hallgrímsdóttir heitir danskennarinn sem kom til okkar og er hún Dalvíkingur.
Grímsey | Mikil gleði ríkti í félagsheimilinu Múla um tíma fyrir skemmstu, danstímar oft á dag og hjá ýmsum aldurshópum. Ingunn Margrét Hallgrímsdóttir heitir danskennarinn sem kom til okkar og er hún Dalvíkingur. Ingunn Margrét hefur kennt dans á Dalvík síðustu þrjú árin og verið í fastri stöðu sem danskennari við þrjá skóla hjá Dalvíkurbyggð, skólanum í Hrísey, í Ólafsfirði og í leikskóla á Akureyri. Ingunn Margrét sagði að það hefði eiginlega verið fyrir slysni að hún fór inn á dansbrautina. Þannig var mál með vexti að hún tók sér frí frá skóla og um líkt leyti komu tveir danskennarar til Dalvíkur, þær Hulda Hallsdóttir og Ásrún Kristjánsdóttir. Ingunn Margrét fékk að fylgjast með í tímum hjá þeim og eftir það varð ekki aftur snúið. Þessi bjarti danskennari segir að þetta sé 15. veturinn sem hún kenni. Ingunn Margrét segir áhuga vera fyrir dansi en spurningin snúist um það að drífa sig af stað í fyrsta tímann. Að fá danskennslu inn í skólana telur Ingunn Margrét gott mál og mikla forvörn . Börnin læra strax í 1. bekk að umgangast hvert annað og snerting verði ekki stór mál heldur eðlilegur hlutur sem á eftir að koma þeim til góða seinna meir í lífinu. Þetta er fyrsta heimsókn Ingunnar Margrétar til Grímseyjar en örugglega ekki sú síðasta. Stefnir hún á að koma aftur í haust og vera þá bæði með framhalds- og byrjunarhópa. "Mér finnst frábært þegar lítil samfélög drífa sig og fá einhverja menningu til sín," sagði danskennarinn brosandi og "það er sannarlega mikil drift í Grímseyingum".