Að undanförnu hefur karladeild Femínistafélagsins staðið fyrir vitundarvakningu meðal karlmanna um nauðganir. Herferðin nefnist "Karlmenn segja nei við nauðgunum".

Að undanförnu hefur karladeild Femínistafélagsins staðið fyrir vitundarvakningu meðal karlmanna um nauðganir. Herferðin nefnist "Karlmenn segja nei við nauðgunum". Fyrst í stað hélt ég að hér væru á ferðinni menn sem væru að reyna að koma sér í mjúkinn hjá konum með því að taka þennan málstað. Ég hef kynnst slíkum mönnum í gegnum tíðina. Þeir þykjast hafa sömu áhugamál og konur í þeirri von að þá muni konum líka við þá. Þetta hefur verið svona "if you can't beat them, join them"-aðferðin. En hvort sem það er ástæðan eða ekki þá finnst mér þetta mjög gott framtak. Karlmenn eru jafn mikið á móti nauðgunum og konur. Nauðgun er svívirðilegt ofbeldi. Sá sem nauðgar vanvirðir mörk annarrar manneskju og saurgar eitthvað sem er fallegt og saklaust og heilagt. Mér finnst það eins og að fremja helgispjöll á manneskju.

Nauðgunum fer fjölgandi, ofbeldið vex og hópnauðganir verða fleiri. Sumir benda á klám, aðrir á sjónvarpsefnið sem ástæðu. Ég held að svarið liggi hjá okkur sjálfum. Það erum við sem mótum sjónvarpsdagskrána. Svo mótumst við áfram af henni. Bachelor, Paradise Hotel, Sex and the City og Temptation Island hafa allt verið frekar vinsælir þættir. Enda eru þeir í takt við tíðarandann. Við viljum vera ung og eftirsótt og viljum fá mikið kynlíf en engar skuldbindingar. Við nennum ekki að standa í röfli. Traust, ást og virðing er fyrir hálfvita.

Svarið liggur í hugsunarhætti okkar, djúpt inni í okkur sjálfum. Það þykir sjálfsagt að lifa kynlífi með fólki sem maður þekkir ekki. Fólk hittist á skemmtistöðum, fer eitthvað og sefur saman. Það er engin skuldbinding, ekkert traust. Ekkert. Fólk notar hvert annað bara eins og mellur. Meira að segja fólk sem er gift. Framhjáhald er algengt. Hjónabandið er úrelt og giftingar og skilnaðir eru orðin skemmtiefni fyrir tímaritsgreinar. Við höfum svipt kynlífið heilagleika sínum og dulúð og gert það að dægrastyttingu og einhverjum leik, þar sem allir tapa á endanum. Allt er sexí, meira að segja bíldekk. Fólk er orðið svo dofið að það leyfir jafnvel dætrum sínum að klæða sig eins og mellur.

Ef það er almennt talið í þjóðfélaginu að kynlíf sé ekki heilagt og hórdómur og lauslæti sé saklaus og skemmtileg dægrastytting þá munum við halda áfram að kalla yfir okkur vanvirðingu, aukið ofbeldi og sjúkdóma.

Vaxandi fjöldi nauðgana er afleiðing af viðhorfum okkar til hjónabandsins og kynlífs, guðleysi og kæruleysi gagnvart náunganum.

Jón Gnarr