Ég dáist oft að því hversu dásamleg tæknin er. Fólk getur spjallað án þess að hitta nokkru sinni hvað annað, fréttir berast á hraða ljóssins og peningaseðlar sjást vart í veskjum manna nú til dags.

Ég dáist oft að því hversu dásamleg tæknin er. Fólk getur spjallað án þess að hitta nokkru sinni hvað annað, fréttir berast á hraða ljóssins og peningaseðlar sjást vart í veskjum manna nú til dags. Allt virðist svo auðvelt og skemmtilegt hjá okkur unga fólkinu (fólk fætt á því herrans ári 1979 er alltaf ungt - bara svona svo að lesendur vaði ekki í villu)... en þeir sem lesa pistla þessa reglulega vita að ég virðist beintengd við óheillakrákuna og því virðast allir tæknilegir örðugleikar því miður ávallt lenda á hverri? ... jú, auðvitað mér!

Fyrir ekki svo löngu yfirgaf síminn minn mig (ég sver það, ég átti þar enga sök!). Já, já, einn glataður sími er nú ekki endalok veraldar gæti margur ef til vill hugsað... en þar hafa menn svo sannarlega kolrangt fyrir sér. Það eru óþægilega mikil tengsl á milli þess að glata síma og að glata vinum (hvað telst orsök og hvað afleiðing í þessum efnum skal ósagt látið). Í einu vetfangi verður maður algerlega ósjálfbjarga og vandræðalega vinafár. Ég man engin símanúmer og þó ég ætli mér alltaf að skrifa niður í litla sæta minnisbók símanúmer vina og vandamanna þá virðist sem slíkur gjörningur fylgi lögmálinu um að gera ekki í dag það sem maður getur gert á morgun.

Heilladísirnar virtust hins vegar vera mér hliðhollar í þetta skiptið og síminn kom í leitirnar eftir um 5 daga ferðalag. Það sem mér var þó óljóst á þessum tímapunkti var að heilladísirnar voru ekki að hlæja með mér heldur að mér! Þegar ég ætlaði að fara að nota símafjandann kom í ljós að hann neitaði einfaldlega að taka við símtölum... eeeen nei, þetta var nú ekki svo borðleggjandi því hann neitaði einungis að taka við símtölum frá ákveðnum einstaklingum (þetta var algerlega handahófskennt og bið ég fólk því að stökkva ekki í ályktanir ef ég hef skellt á ykkur). Ég ákvað þó að taka enga frekari áhættu og jarðaði kvikindið strax í helgan reit.

Nú á ég alveg ágætlega vel alinn síma en stundum virðist eitt taka við af öðru. Tölvan mín hefur nú smitast af einhverjum déskotans frunsum. Ekki nóg með að mér sé nánast ófært að senda mikilvægan erindrekapóst heldur eru þessar frunsur svo bráðsmitandi að tölvur vina minna smitast nánast við það eitt að ég hugsi til þeirra! Menn mega ekki misskilja mig - ég elska tölvuna mína út af lífinu og vil allt fyrir hana gera svo hún verði frísk á ný, en satt best að segja hefur það hvarflað að mér að læðast aftan að henni í skjóli nætur og fleygja henni fram af svölunum hjá mér. Það bætir heldur ekki annars óþolandi ástand að við þessar aðstæður öðlast tölvur sjálfstætt líf. Mér líður satt best að segja stundum þannig að frunsufyllta ferlíkið glotti framan í mig þegar ég reyni að hafa rafsamskipti við vandamenn. Ég veit varla hvað til bragðs skal taka en kannski er best að senda hana í einhvers konar langtímameðferð.

Ég velti því stundum fyrir mér þegar svona hlutir henda mig hvort tæknibyltingin sé að éta börnin sín. Væri ekki einfaldara að tala bara við fólk augliti til auglitis og sleppa þar með við framandi tölvufrunsur og símaflandur?

Heiðrún Lind Marteinsdóttir