[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bækur Stephen Smith - Underground London: Travels Beneath the City Streets Borgasögur þekkja allir og slíkar bækur um Lundúnir legíó.

Bækur

Stephen Smith - Underground London: Travels Beneath the City Streets

Borgasögur þekkja allir og slíkar bækur um Lundúnir legíó. Í nýrri bók Stephens Smiths er sjónarhornið þó annað; hann er að segja borgarsögu en neðanfrá ef svo má segja, sögu þeirra Lundúna sem menn sjá ekki alla jafna nema þeir eigi erindi í undirheima borgarinnar í bókstaflegri merkingu. Smith fór um ræsi, neðanjarðarlestagöng, leynigöng og hvelfingar og rekur hvernig þær tengjast sögu borgarinnar, aukinheldur sem hann segir frá því sem horfið hefur undir stræti borgarinnar, gömul hof, flóttaleiðir og ár.

Lauren Slater - Opening Skinner's Box: Great Psychological Experiments of the 20th Century

Lauren Slater fékk þá bráðsnjöllu hugmynd að segja sögu aldarfars með því að skoða sál- og taugafræðitilraunir aldarinnar, hvaða aðferðum menn höfðu beitt til að reyna að skilja sjálfa sig aðeins betur, sjá hvað mótar manninn og hvað hefur áhrif án þess að menn taki beinlínis eftir því. Flestir þekkja tilraunirnar úr menntaskólanámi eða af lestri enda eru þær margar orðnar hálfgerðar goðsagnir, sumar ótrúlegri en nokkur skáldskapur. Slater leitaði uppi frumheimildir þar sem þær var að finna, ræddi við þá sem gerðu tilraunirnar, aðstoðarmenn þeirra, aðstandendur eða afkomendur eftir því sem við átti og reynir draga upp mynd af mönnum sem gerðu tilraunirnar ekki síður en þeim sjálfum og niðurstöðum þeirra.

Tónlist

Westside Connection - Terrorist Threats

Þegar bófarappið var í algleymingi kom út fyrsta skífa rappsveitarinnar Westside Connection sem skipuð var þeim Ice Cube, Mack 10 og WC. Þó platan hafi náð gullsölu heyrðist ekki meira frá þeim félögum saman í mörg ár eða þar til ný skífa, Terrorist Threats, kom út síðasta haust vestan hafs en kemur út um þessar mundir í Evrópu. Þeir Ice Cube, Mack 10 og WC eru við sama heygarðshornið í bófahasarnum, reyna að blása lífi í gamlar rappglæður, og fróðlegt að sjá hvort slíkt höfði enn til hiphopvina í dag.

Joe Satriani - Is There Love in Space?

Fáir gítarleikarar njóta annarrar eins virðingar vestan hafs og Joe Satriani sem mótaði heila kynslóð gítarleikara og skapaði nýjan stíl í rafgítarrokki á níunda áratugnum. Þó heldur hafi fjarað undan þeirri gerð tónlistar sem Satriani er þekktastur fyrir hefur hann haldið sínu striki og sendir reglulega frá sér plötur þar sem heyra má að honum hefur síst förlast; hann er enn einn tæknilegasti rafgítarleikari heims. Á nýrri skífu, Is There Love in Space?, grípur hann til þjóðlegrar tónlistar til að skreyta lögin og jafnvel rafeindatóla á stöku stað.

Diana Krall - The Girl in the Other Room

Mörgum eru minnisstæðir tónleikar Diönu Krall í Laugardalshöll sl. haust. Á þeim tónleikum var djasspíanistinn Krall í aðalhlutverki en á nýrri skífu hennar, The Girl in the Other Room, ber öllu meira á söngkonunni, aukinheldur sem hún tekur fyrir lög sem seint verða flokkuð sem djasstónlist í bland við hálfdjass; lög eftir Tom Waits, Mose Allison, Joni Mitchell og Bonnie Raitt. Helming laganna semja þau saman Krall og eiginmaður hennar, Elvis Costello, og mál manna að henni hafi ekki áður tekist betur upp á plötu.

Drew - Songs From The Devil's Chimney

Drew Kennet heitir ungur tónlistarmaður frá Isle of Wight sem menn spá miklum frama í Bretlandi um þessar mundir. Hann þykir með afbrigðum góður lagasmiður og ekki síðri textasmiður - textarnir hreint fyrirtak. Útsetningar eru naumhyggjulegar, jafnvel svo hráar á köflum að hljómar eins og prufuupptökur. Þessi frumraun Drews hefur fengið fína dóma og menn nefna sem áhrifavalda Lennon og McCartney, Neil Young, Oasis og The Byrds svo dæmi séu tekin.

DVD

Kill Bill, Volume 1

Quentin Tarantino er mistækur kvikmyndasmiður en þegar hann er góður standast fáir honum snúning. Kill Bill tvíleikurinn, en seinni hluti hans er nú sýndur í kvikmyndahúsum, er með bestu verkum hans, uppfullur með ofbeldi og húmor eins og honum einum er leikið. Tarantino er gríðarlegur áhugamaður um kvikmyndir og þá gjarnan myndir sem þykja ekki par fínar. Þar á meðal eru japanskar og kínverskar (Hong Kong) slagsmála- og glæpamyndir þar sem blóð flýtur í stríðum straumum. Í Kill Bill er þannig grúi tilvísana í gamlar og nýjar slagsmálamyndir sem menn geta skemmt sér við að finna þegar þeir eru búnir að sjá nægju sína af Umu Thurman slátra óþokkum á báðar hendur. arnim@mbl.is