[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ungur drengur knýr dyra á húsi við kyrrláta götu í Reykjavík. Arnór Guðjohnsen kemur til dyra. Ungi drengurinn spyr hvort Guðjohnsen megi koma út að leika. Arnór kallar á son sinn: "Eiður!

Ungur drengur knýr dyra á húsi við kyrrláta götu í Reykjavík. Arnór Guðjohnsen kemur til dyra. Ungi drengurinn spyr hvort Guðjohnsen megi koma út að leika. Arnór kallar á son sinn: "Eiður!"

Beðið við símann

Þannig hefst sjónvarpsauglýsing fyrir kók, sem unnin er af auglýsingastofunni Góðu fólki og kvikmynduð af Filmus. Er hún tekin í tilefni af sumarleik Vífilfells, sem felst í því að safna töppum og uppskera einhvern af þeim 200 þúsund vinningum sem í boði eru og tengjast knattspyrnuiðkun. Auglýsingaherferðinni verður ýtt úr vör í dag, þó að sjónvarpsauglýsingarinnar sé lengra að bíða.

"Við vissum að við hefðum Eið Smára í auglýsingunni, en spurningin var alltaf sú hvenær og hvort hann kæmist til landsins," segir Gary Wake, sem er yfir hugmyndavinnu hjá Góðu fólki. "Við gerðum handritið þannig að það væri hægt að vinna eftir því bæði í London og í Reykjavík, en óskuðum okkur þess helst að tökur gætu farið fram í íslensku umhverfi. Síðan var bara að bíða við símann."

Það stóð til að taka auglýsinguna á sunnudag, en eftir tapleikinn gegn Newcastle dróst á langinn að leikmenn fengju áætlað leyfi vegna fundarhalda með Claudio Ranieri, knattspyrnustjóra Chelsea. Mátti engu muna að Eiður Smári missti af vélinni heim loksins þegar leikmenn fengu fararleyfi.

Galdur kvikmyndagerðarinnar

Eiður Smári stendur á varðskipi og spyrnir boltanum út á haf. Á skipinu Vigra RE tekur Haukur fagmannlega á móti knettinum. En ekki er allt sem sýnist. Beitt var galdri kvikmyndagerðarinnar.

"Það þurfti nokkrar tilraunir til að þetta gengi upp og þótt Eiður sé heimsklassa leikmaður þá er alls ekki auðvelt að spyrna boltanum alla þessa leið. Þó nokkrir boltar enduðu í sjónum, þar á meðal nokkrir sem Eiður var búinn að árita! ... Sem er mjög slæmt því boltarnir eru góðir og ekki verða þeir verri við að Eiður áriti þá! Það næsta sem gerist er að við sjáum einhvern áhugasaman trillukall sigla í humátt á eftir boltunum með stærðar háf að vopni.. Við vitum ekki hvort hann náði þeim á land en það verður sannkallaður happafengur fyrir þann sem finnur boltana - hvort sem þeir skila sér að landi eða verða háfaðir upp," segir Arnar Knútsson framkvæmdastjóri Filmus.

"Ætli þetta hafi ekki verið þrír eða fjórir fótboltar sem höfnuðu í sjónum," segir Gary. "Ef til vill fær einhver á Grænlandi óvæntan glaðning - kókbolta frá Eiði Smára. Eða kannski að við sjáum ísbirni leika sér með þá á ísbreiðunni." pebl@mbl.is