— Ljósmynd/Gary Wake
Á Íslandi beið Haukur Baldvinsson eftir að leika í kókauglýsingu, en hann hafði ekki hugmynd um hver myndi leika á móti honum. Haukur verður 14 ára í maí og æfir með 4. flokki Breiðabliks.

Á Íslandi beið Haukur Baldvinsson eftir að leika í kókauglýsingu, en hann hafði ekki hugmynd um hver myndi leika á móti honum. Haukur verður 14 ára í maí og æfir með 4. flokki Breiðabliks. Hann fékk ekki að vita það fyrr en daginn áður að hann væri að fara að leika í auglýsingu á móti Eiði Smára.

Kom þetta þér á óvart?

"Já, frekar. Ég vissi aldrei á móti hverjum ég ætti að leika. Mér var sagt að það ætti að koma einhver maður í þetta, en ekki hvort hann yrði frægur."

Þegar kom í ljós að þetta yrði Eiður Smári, leist þér eitthvað á þetta?

"Já, mér fannst það bara spennandi."

Kunnirðu sæmilega við hann?

"Já, þetta var mjög fínt. Við töluðum aðeins saman í bílnum og svona. Hann spurði hvort ég æfði með Blikunum, hvaða flokki ég væri í og hvernig gengi í fótboltanum."

En getur hann eitthvað?

"Hann er mjög góður."

Hvernig gekk þér?

"Mér fannst bara ganga ágætlega."

Með hvaða liði heldurðu í ensku knattspyrnunni?

"Ég held með Liverpool."

En það hefur ekkert komið fram í spjallinu.

"Nei," svarar hann og hlær.

Berðu ekki aðeins sterkari taugar til Chelsea eftir þetta?

"Ég ber sterkari taugar til Chelsea eftir að hann fór þangað og held með þeim, svona sem öðru liði."

Hvernig stóð eiginlega á því að þú fórst að halda með Liverpool?

"Ég veit það ekki. Pabbi hélt með Liverpool og það var sennilega ekkert annað í boði," segir hann og hlær.