Pöddur af ýmsu tagi, moskítóflugur, stórar kóngulær, snákar og blóðsugur voru á meðal þess sem Bjarni Snæbjörnsson þurfti að læra að venjast þegar hann starfaði sem nokkurs konar strandvörður og leiðbeinandi í sumarbúðum í Wisconsin í Bandaríkjunum en...

Pöddur af ýmsu tagi, moskítóflugur, stórar kóngulær, snákar og blóðsugur voru á meðal þess sem Bjarni Snæbjörnsson þurfti að læra að venjast þegar hann starfaði sem nokkurs konar strandvörður og leiðbeinandi í sumarbúðum í Wisconsin í Bandaríkjunum en það hefur hann gert síðustu fjögur sumur. Hann telur að margir viti ekki af þessum möguleika.

"Þetta er æðislegt starf, alveg magnað, maður var úti frá morgni til kvölds með krökkunum í íþróttum. Búðirnar voru í miðjum skógi, allt fullt af ám og vötnum á svæðinu," segir Bjarni. Hann bætir við að hins vegar hafi tekið tíma að venjast moskítóflugunum og að hann hafi allt eins getað átt von á því að væn kónguló væri búin að gera sér hreiður í sturtunni.

"Blóðsugurnar voru samt ógeðslegastar. Þær lifa í vatninu og festu sig við krakkana þegar þeir voru að synda. Þær sjúga sig fastar við manneskjuna og ómögulegt er að slíta þær af. Eina leiðin er að hella yfir þær salti svo þær skorpni og bíða eftir að þær detti af."

Strákar úr láglaunafjölskyldum

Í búðunum sem Bjarni vann í, Camp Glenwood, voru eingöngu strákar og allir úr láglaunafjölskyldum úr úthverfum Chicago-borgar. Sumarbúðirnar eru reknar á fjárframlögum og gjöfum en þarna eru krakkar sem alla jafna hefðu annars ekki tækifæri til að fara í sumarbúðir. Til að mega vinna í sumarbúðum þarf fólk að vera orðið 18 ára, auk þess sem allir þurfa ganga í gegnum nokkurs konar kynningarviku. Fyrir ákveðin störf þarf svo að sækja námskeið í fyrstu hjálp og strandvörslu. Starfið í sumarbúðunum er á vegum samtaka sem nefnast Camp America en VistaXchange sjá um að senda fólk héðan.

Stríðsminjasafnið í Hiroshima eftirminnilegast

Bjarni nemur nú leiklist í Listaháskóla Íslands og hyggst vera heima í sumar, fyrsta skipti í mörg ár. Hann er með mikla ferðabakteríu, hefur meðal annars ferðast um gervalla Ástralíu, Taíland og Japan. Hann hefur oftast verið einn á ferðum sínum en yfirleitt átt vini á þeim fjarlægu slóðum sem hann hefur heimsótt. Hann er spurður hver sé eftirminnilegasti staðurinn sem hann hefur komið til á ferðum sínum. "Líklega er það stríðsminjasafnið í Hiroshima sem er magnað. Sydney er líka æðisleg borg og svo auðvitað Miklagljúfur og svæðin þar í kring í Arizona og Utah."

bryndis@mbl.is