Fáar þjóðir standa Ítölum á sporði í kaffinu, margir helstu siðir í kaffineyslu eru þaðan, framúrskarandi kaffiframleiðendur og fínustu kaffivélar.

Fáar þjóðir standa Ítölum á sporði í kaffinu, margir helstu siðir í kaffineyslu eru þaðan, framúrskarandi kaffiframleiðendur og fínustu kaffivélar. Það eru þó framleiddar kaffivélar víðar og með helstu framleiðendum á því sviði er svissneska fyrirtækið Solis en vélar þaðan hafa fengist hér á landi árum saman.

Ýmsar gerðir Solis-véla eru fáanlegar og vísast hafa margir komist í tæri við þær. Þær eru og almennt góðar og þannig eru einkar góð kaup til að mynda í Crema SL70 og SL90 vélunum. Sú sem hér er tekin til kosta, Palazzo Rapid Steam, er flaggskipið í heimilisvélunum, en hentar reyndar líka fyrir smærri fyrirtæki ef út í það er farið.

Eins og nafnið bendir til er þessi gerð af Palazzo-vélinni með tvöfaldan hitara, sem gerir að verkum að gufu er hægt að fá undireins og búið er að renna í bollann eða áður en kaffið er búið til án þess að eiga á hættu að kaffivatnið sé of heitt. Efst á vélinni er baunahólf enda er hún með innbyggða kvörn, mjög góða kvörn reyndar og vandaða, en einnig er á henni hólf fyrir malað kaffi ef vill.

Vélin er ekki ýkja stór, kemst þannig vel fyrir á venjulegu eldhúsborði, passar undir efri skápana, 28 sentimetrar á breidd, rúmir 36 á hæð og 43 á dýpt. Hún er á snúningsfæti og því einfalt að komast að vatnstankinum sem er aftan á, en hann er tveggja lítra gagnsær og sést því hve mikið er í honum hverju sinni. Auðvelt er að kippa honum upp til að fylla eða þrífa hann, sjálfkrafa lokast fyrir vatnið og engin hætta á leka. Einnig er gott að geta snúið vélinni til að setja baunir í kvörnina, sem rúmar 250 g af baunum, og einnig til að stilla kvörnina og skammtastærð. Einhverjum finnst það hugsanlega snúið að stilla grófleikann, þ.e. að ekki sé hægt að stilla hann framan á vélinni eða á hlið hennar, en mín reynsla er sú að það þarf sárasjaldan að gera þegar búið er að finna réttan grófleika og réttan skammt á annað borð.

Framan á vélinni eru ýmis gaumljós; ljós ef vantar baunir eða vatn, ljós sem gefur til kynna ef korgshólfið er fullt og loks eitt sem segir til ef keyra þarf innbyggt hreinsikerfi, sem kviknar á eftir 250 bolla, eða hreinsa kísil. Hnapparnir á vélinni eru fjórir, einn fyrir hreinsikerfið, einn ef nota á malað kaffi, einn fyrir stóran skammt, einn fyrir lítinn og svo einn til að skipta yfir í heitt vatn um gufustútinn. Hægt er að ýta tvisvar á litla hnappinn til að fá tvöfaldan espresso en sá stóri er aðallega ætlaður fyrir þá sem vilja stóran kaffi með mikilli kaffifroðu sem er vinsæll drykkur í Sviss og Þýskalandi, en þá er kaffið líka malað grófar en fyrir hefðbundinn espresso.

Gufustúturinn er framan á vélinni hægra megin, en hægt að snúa til og frá. Á honum er sérstakur froðustútur fyrir þá sem vilja, sem eru líklega flestir. Hægt er að flóa mjólk um leið og búið er að búa til kaffi, eins og getið er, eða á undan sýnist mönnum svo.

Hitaplata er efst á vélinni til að geyma espresso-bollana og halda þeim heitum. Hægt er að hækka og lækka kaffistútinn eftir því hversu stór bollinn eða kannan er undir.

Líkt og í flestum alsjálfvirkum vélum gefur hún fyrst smáskvettu af vatni og svo einni til tveim sekúndum síðar byrjar hún að dæla vatninu í gegn. Hægt er að slökkva á því sýnist mönnum svo og einnig hægt að stilla ýmislegt annað eins og hörku vatnsins, hægt er að láta vélina byrja alltaf á því að hreinsa vatn úr leiðslum þegar kveikt er á henni og einnig er hægt að láta hana mala næsta skammt á meðan verið er að laga kaffi, sem er vitanlega hentugt þegar búa þarf til kaffi fyrir marga í einu.

Vélin er fljót að hitna og hægt að búa til kaffi um hálfri mínútu eftir að kveikt hefur verið á henni þó það sé góður siður að láta hana blása aðeins, dæla smá vatni í gegnum hana til að hita allt kerfið. Að því loknu er svo ekkert annað að gera en búa til kaffi og það er fyrsta flokks úr þessari vél. Eftir að hafa haft vélina um hríð og búið til meira kaffi en hollt er, býst ég við, fær hún bestu meðmæli; auðveld í notkun og skilar afbragðs kaffi.

Kostir: Auðveld í notkun, hraðvirk og skemmtileg vél. Ekki of stór fyrir eldhúsbekkinn. Skilar mjög góðu kaffi.

Gallar: Fulldýr, kostar 73.579 kr.

arnim@mbl.is