Fallout: Brotherhood of Steel Með bestu leikjum sem komið hafa út fyrir PC-tölvur er Fallout, leikur frá 1997 sem þótti byltingarkenndur á sínum tíma. Af honum kom framhald, Fallout 2 1998 og Fallout 3 væntanlegt á þessu ári eða því næsta.
Fallout: Brotherhood of Steel

Með bestu leikjum sem komið hafa út fyrir PC-tölvur er Fallout, leikur frá 1997 sem þótti byltingarkenndur á sínum tíma. Af honum kom framhald, Fallout 2 1998 og Fallout 3 væntanlegt á þessu ári eða því næsta. Fallout: Brotherhood of Steel er aftur á móti fyrsta gerð leiksins sem ætluð er fyrir Play Station 2 og Xbox, en höfundar hans eru þeir sömu og gerðu Baldurs Gate Dark Alliance leikina.

Sem fyrr þarf leikandinn að halda lífi í hörmungaheimi þar sem kjarnorkustríð hefur eytt nánast öllu lífi og siðmenningu. Sjónarhornið er í þriðju persónu en ólíkt fyrri leikjum stýrir maður nú þremur persónum sem stefna allar að sama marki sem Stálbræðralagið, eins og nafn leiksins gefur til kynna. Nóg er til af vopnum í leiknum og barist í návígi og úr fjarlægð. Óþokkarnir eru stökkbreyttir menn sem vilja helst að allir verði eins og þeir. Til að sigrast á þeim þarf að komast yfir ýmislegt sem hættulegt er og erfitt að ná í en höfuðmarkmiðið er að hindra hina stökkbreyttu í að smíða vopn eitt mikið sem breyta mun öllum þeim í stökkbreyttar ófreskjur sem ekki eru það nú þegar.

Eitt af einkennum Fallout-leikjanna er kímnin í þeim og af henni er nóg í þessum nýjasta þætti í framhaldssögunni. Einn eða tveir geta spilað leikinn.