[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Barcelona: Eyddi vikunni í Barcelona ásamt vinkonu minni. Þetta var afskaplega afslappað hjá okkur og jú jú, við skoðuðum helstu ferðamannastaðina en líka var drjúgum tíma eytt í búðum. Tókum semsagt Íslendinginn á þetta.
Barcelona: Eyddi vikunni í Barcelona ásamt vinkonu minni. Þetta var afskaplega afslappað hjá okkur og jú jú, við skoðuðum helstu ferðamannastaðina en líka var drjúgum tíma eytt í búðum.

Tókum semsagt Íslendinginn á þetta. Vorum líka fljótar að skella okkur í stuttbuxur og boli þegar sólin lét sjá sig, þrátt fyrir að innfæddir klæddust úlpum og treflum. Í ferð úti í sveit urðum við heldur en ekki glaðar þegar við sáum loksins annað léttklætt fólk sleikja sólina innan um úlpurnar. Fljótlega kom í ljós að þetta voru frændur okkar Svíar, gat verið!

Þeir sem hyggjast leggja leið sína til Barcelona á næstunni ættu borða á Margarita Blue . Þar fást ýmsar gerðir af kokkteilum sem reyndar voru misgóðir, mæli með Mojito. Þarna var aðallega ungt fólk, flottur bar, plötusnúður spilaði fína tónlist og massagóður mexíkanskur matur.

Brúðkaup: Missti af brúðkaupi systur minnar sem var haldið með pompi og prakt heima hjá foreldrum mínum daginn áður en ég kom heim frá Barcelona. Það gleymdist nefnilega að segja mér frá fyrirhuguðu brúðkaupi svo ég vissi ekki af því fyrr en rétt áður en ég fór út. Nú eru öll þrjú systkini mín gift og skandall að ég sé sú eina sem ekki er búin að gifta mig eins og önnur nærgætin systir mín var svo vinsamleg að benda mér á. Þetta náttúrulega gengur ekki, verð að fara að vinna í þessu...

Náði samt að mæta í annað brúðkaup áður en ég fór út, hjá einni af mínum bestu vinkonum. Þar var mikið fjör, en hvað er þetta með brúðkaup, af hverju í fjáranum grenjar maður svona mikið í kirkjunni? Gera strákar þetta líka?

Á laugardagskvöldið gerði ég tilraun til að horfa á danska mynd sem heitir Blinkende lykter og fjallar um fjóra seinheppna smáglæpamenn á flótta undan grimmum Færeyingi (!). Missti fljótt þolinmæðina og skellti annarri í tækið, breskri mynd sem ber nafnið Love, Honour and Obey , gafst upp eftir tíu mínútur, en hún fjallaði að mig minnir líka um einhverja krimma.

Stefnumót: Fór í bíó á 50 First Dates með Adam Sandler og Drew Barrymore. Af einhverjum ástæðum er fyrri helmingurinn í rómantískum gamanmyndum jafnan fyndinn og skemmtilegur en eftir hlé verða þær nánast undantekningarlaust langdregnar og væmnar. Það átti við um þessa mynd. Hún var samt hin ágætasta vellíðunarmynd.

bryndis@mbl.is