Álfur drekadrengur og Ketill ræða málin.
Álfur drekadrengur og Ketill ræða málin.
Það er alltaf spennandi þegar aðrir en Bandaríkjamenn eða Japanar koma fram með góðar teiknimyndir. Margir muna eftir dönsku teiknimyndinni Hjálp! Ég er fiskur og þýsku myndinni Abrafax og sjóræningjarnir, sem voru sallafínar.

Það er alltaf spennandi þegar aðrir en Bandaríkjamenn eða Japanar koma fram með góðar teiknimyndir. Margir muna eftir dönsku teiknimyndinni Hjálp! Ég er fiskur og þýsku myndinni Abrafax og sjóræningjarnir, sem voru sallafínar. Og nú bíðum við öll spennt eftir íslensku teiknimyndinni um Ása Þór, sem liggur víst á teikniborðinu. En þar til hún er tilbúin er um að gera að kíkja á spænska teiknimynd sem heitir La Colina Del Dragón, eða Drekafjöll, og frumsýnd verður þessa helgi - og auðvitað með íslensku tali.

Drekafjöll slógu í gegn á Spáni árið 2002 og hlutu Goya-verðlaunin spænsku það árið sem besta teiknimyndin, en þau eru virtustu kvikmyndaverðlaunin á Spáni. Myndin er fyrsta mynd leikstjórans Ángel Izquierdo og handritshöfundarins Antonio Zurera sem eiga fyrirtækið Millimetos Feature Animation Studios.

Besta spænska teiknimyndin

Og Ángel er vel upp alinn. Lærimeistari hans var enginn annar en Bill Hanna, annar helmingurinn af Hanna-Barbera teyminu, sem á heiðurinn af Fred Flintstone, Scooby-Do, Jóga birni og fleiri frægum teiknimyndaþáttaröðum. Ángel og Antonio hafa sinnt ýmsum verkefnum fyrir Hanna-Barbera og Universal Pictures, ásamt tveimur Asterix-myndum fyrir Gaumont og fleira skemmtilegt, svo það má treysta því að þeir viti hvað þeir eru að gera.

En Drekafjöll eru sem sagt stórkostleg veröld þar sem allir drekar búa. Fólk frá öðrum tíma og löndum ratar af ólíkum ástæðum til Drekafjalla eins og Hrekklyndur hinn illgjarni. Markmið hans er að ræna Drekafjöll með aðstoð óaldarlýðs og öðlast í krafti auðsins, heimsyfirráð. En tilraunin mistekst og Hrekklyndur lendir í dýflissum Drekafjalla.

Drekafjöll eru vernduð af höfuðskepnunum fjórum; eldi, vatni, jörð og lofti, og aðeins vörðurinn Engilbert hefur lykilinn og býr yfir leyndardóminum um hvernig komast má þaðan. En nú hefur Hrekklyndur hinn illgjarni fundið leið til að sleppa út úr Drekafjöllum, en til þess að það heppnist þarfnast hann aðstoðar einhvers sem hefur hreina sál og saklaust hjarta. Hver ætli það verði?

Myndin er flutt inn af Thorfilm, sem er nýtt fyrirtæki á íslenska myndbanda- og kvikmyndamarkaðnum, og aðstandandi þess er Jón Sigurðsson.

Barátta góðs og ills

"Ég og félagi minn vildum endilega finna myndefni fyrir börnin, því það er lítið úrval af því á markaðinum," segir Jón. "Drekafjöll urðu fyrir valinu því í henni eru þættir sem höfða til margra í dag, eins og barátta góðs og ills og svo drekarnir sem eru mjög vinsælir. Það er kannski minni hasar í henni en í Disney-myndunum en þó margir kaflar þar sem atburðarásin gengur hratt fyrir sig. Myndin snýst um ákveðin heilræði og boðskapurinn er sá að peningar geta ekki keypt hamingjuna, sem er mjög viðeigandi í dag. Svo eru auðvitað teikningarnar alveg hágæða," segir Jón.

Drekafjöll hafa verið talsett á íslensku, og helstu leikraddir eru Selma Björnsdóttir sem talar fyrir Ketil, Halla Vilhjálmsdóttir ljær Álfi drekastrák sína rödd og Jón Sigurðsson sjálfur, sem lærður er í leiklist, er Hrekklyndur illgjarni. Edda Heiðrún Backman lætur í sér heyra, líka Ólafur Darri Ólafsson, Gunnar Hansson, Ellert Ingimundarson, Linda Ásgeirsdóttir og Sigurður Sigurjónsson, svo þetta verður áreiðanlega mjög gaman. hilo@mbl.is