[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er engin venjuleg skrifstofa. Ef hún væri í banka, þá væri það banki hugarflugsins. Kampavínsflaska í hillu með "alvöru kampavíni", sem búið er að innbyrða. Þar eru líka kassar með ýmsum áletrunum, s.s.

Þetta er engin venjuleg skrifstofa. Ef hún væri í banka, þá væri það banki hugarflugsins. Kampavínsflaska í hillu með "alvöru kampavíni", sem búið er að innbyrða. Þar eru líka kassar með ýmsum áletrunum, s.s. fuglar, gerviblóm, matardallar fyrir dýr og fatlaðar kisur/slasaðar. Tvær stelpur í bleiku eru við tölvurnar sínar og sú þriðja í Berlín - í bleiku. Þær eru listamenn. Og skrifstofan í banka hugarflugsins í húsnæði Klink og Bank í gamla Hampiðjuhúsinu.

- Eigið þið kítti? spyr Páll Banine og stingur höfðinu inn um dyragættina.

- Nei, segir Jóní eftir nokkra leit, en bætir við:

- Við eigum hamar.

Vinna saman á Netinu

Í Gjörningaklúbbnum eru þrjár stelpur. Þær eru einhvern veginn meiri stelpur en konur. Það er allt svo skemmtilegt sem þær eru að gera. Eins og þær séu að leika sér.

Sigrún Hrólfsdóttir og Jóní Jónsdóttir eru á vinnustofunni í Klink og Bank, sem er gamalt reykherbergi Fréttablaðsins.

- Hér voru hlutirnir að gerast, segir Jóní glaðbeitt.

- Kjaftasögurnar lúra yfir okkur, bætir Sigrún við.

- Fyrir vikið erum við með bestu loftræstinguna í húsinu, klykkir Jóní út með.

Þriðja stelpan í gjörningaklúbbnum er Eirún Sigurðardóttir, sem búsett er í Berlín um þessar mundir. Á hverjum degi eru þær klukkutímum saman á Netinu og bera saman bækur sínar. Af nógu er að taka.

Nýlega opnuðu þær einkasýningu í galleríinu Jack the Pelican í Williamsburg í Brooklyn.

- Þetta er nýjasta listahverfið í New York, segir Sigrún. Ég bjó þarna árið 1996 og þá var ekkert um að vera. Nú er gróskan mikil, ný veitingahús og gallerí og hipsterar spígsporandi um göturnar.

Pelsklæddar konur með gítar

Á sýningunni er m.a. myndaröð af pelsklæddum konum sem eru búnar að fá nóg af því að vera í einbýlishúsunum sínum og fara út í náttúruna að spila á gítar. En komast ekkert voðalega langt.

- Það er dálítið eins og þær séu að strjúka að heiman, segir Sigrún. Ég strauk einmitt að heiman með Helgu Soffíu vinkonu minni þegar ég var lítil. Við tjölduðum, en síðan höfðum við eiginlega ekkert að gera. Svo við bara fórum að sofa. Þegar við vöknuðum fannst okkur við hafa verið lengi í burtu og fórum aftur heim. Þá var klukkan bara níu. Mamma og pabbi skömmuðu mig og sendu mig beint í háttinn. Þannig að flóttanum mikla lauk með því að ég lá glaðvakandi í rúminu eftir að hafa sofið allan daginn.

Á sýningunni er einnig skallaörn, sem listakonurnar þrjár vinna úr nælonsokkabuxum.

- Skallaörninn er tákn Bandaríkjanna, risaveldisins sem gnæfir yfir heimsbyggðina, segir Jóní.

- Hann er voðalega illilegur á svipinn, en svo er hann bara nælonkrútt, segir Sigrún.

Stuttmynd í Cannes

Það er fleira á döfinni. Stuttmynd eftir Gjörningaklúbbinn verður sýnd í syrpu íslenskra stuttmynda á Kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí, en hún var áður sýnd á sýningu Gjörningaklúbbsins í Nýlistasafninu í ágúst.

- Hún fjallar um baráttu góðs og ills, segir Jóní og þær fara á flug.

- Það var gaman fyrir okkur þrjár að teikna án þess að það væri nein lógík eða ein rétt skýring, þó að við teiknuðum inn í ákveðið andrúm, segir Sigrún.

- Við viljum ekki einskorða okkur við einn miðil í listsköpun eða einn markað, heldur Jóní áfram. Það er allt opið. Og svo fáum við í lið með okkur hæfileikafólk á ýmsum sviðum, t.d. er Ólafur Björn Ólafsson með trommusólóið í teiknimyndinni.

- Umhverfið hér í Klink og Bank styður mjög við þessa hugsun; þetta er suðupottur hugmynda úr ólíkum listgreinum, segir Sigrún að lokum.

pebl@mbl.is