Eivør Pálsdóttir syngur einsöng í verkinu Von eftir John Høybye á tónleikum Gradualekórs Langholtskirkju.
Eivør Pálsdóttir syngur einsöng í verkinu Von eftir John Høybye á tónleikum Gradualekórs Langholtskirkju. — Morgunblaðið/Eggert
ÁRLEGIR vortónleikar Gradualekórs Langholtskirkju verða haldnir í dag. Á fyrri hluta tónleikanna verður flutt tónlist sem tengist vorinu og sumarkomunni og mun Ólöf Kolbrún Harðardóttir syngja með kórnum.

ÁRLEGIR vortónleikar Gradualekórs Langholtskirkju verða haldnir í dag. Á fyrri hluta tónleikanna verður flutt tónlist sem tengist vorinu og sumarkomunni og mun Ólöf Kolbrún Harðardóttir syngja með kórnum. Á seinni hluta tónleikanna verður flutt tónverkið Von eftir danska tónskáldið John Høybye fyrir kór, einsöngvara, orgel, píanó, altsaxófón, bassa og slagverk, en verkið var einnig flutt á vortónleikum kórsins í fyrra. Einsöngvari í Von er færeyska söngkonan Eivør Pálsdóttir og stjórnandi kórsins er Jón Stefánsson.

"Aðalverkið á tónleikunum er auðvitað verk Johns Høybye. Við fluttum það í fyrra á norrænu tónlistarupppalendaþingi sem haldið var Digraneskirkju, en Høybye heiðursgestur og fyrirlesari þar, og á vortónleikum okkar. Það sem hefur bæst við verkið núna er kóreógrafía fyrir kórinn, sem var gerð af Aðalheiði Halldórsdóttur. Hún er við nám í þessum fræðum í Hollandi, en er stödd hér á landi í verknámi," segir Jón Stefánsson í samtali við Morgunblaðið. Auk verkins eftir Høybye segir Jón önnur verk á efnisskránni vera hefðbundin vorverk. "Til dæmis flytjum við Strauss-vals sem heitir Vorljóð, Senn kemur vor og Úr útsæ rísa Íslands fjöll, sem er með ungmennafélags-voranda í sér. Á efnisskránni eru líka meðal annars tvær Ave Maríur, eftir Eyþór Stefánsson og Sigvalda Kaldalóns. Ólöf Kolbrún syngur einsöng í þeirri síðarnefndu."

Gradualekór Langholtskirkju er skipaður krökkum á aldrinum 12-18 ára, sem hefur verið starfræktur í 13 ár. Jón segir mikla eftirvæntingu ríkja fyrir tónleikana meðal kórfélaga. "Verkið hans Høybye er djasskennt, og það höfðar mjög til krakkanna," segir hann.

Það er skammt milli stórra högga hjá Gradualekórskrökkum, því í febrúar flutti kórinn Gloriu eftir Vivaldi ásamt hljómsveit, og í byrjun júní er fyrirhuguð tónleikaferð um Vestfirði sem slá mun botninn í þetta starfsár kórsins.

Hljóðfæraleikarar á tónleikunum er Sigurður Flosason, Kjartan Valdemarsson, Lára Bryndís Eggertsdóttir, Gunnar Hrafnsson og Pétur Grétarsson.

KB banki er styrktaraðili tónleikanna, sem hefjast í Langholtskirkju í dag kl. 17.