Stefán Aðalsteinsson
Stefán Aðalsteinsson
Þar er því lýst hvernig Þingvellir urðu frá upphafi Alþingis allsherjarfé, þ.e. sameign allra landsmanna.

NÝVERIÐ kom upp mismunandi túlkun á því í sjónvarpi hvort ríki eða kirkja væri eigandi að landinu á Þingvöllum. Séra Halldór Gunnarsson í Holti hélt því fram að kirkjan ætti landið þar en Davíð Oddsson forsætisráðherra taldi að ríkið ætti Þingvelli.

Fróðlegt er að skoða fyrstu heimildir um eignarhald á landi Þingvalla, en þær er að finna í Íslendingabók Ara fróða Íslenzk fornrit, I, bindi, Íslendingabók, Landnámabók, bls. 8. og ýmsan nánari fróðleik um stofnun Alþingis og aðdraganda hennar er að finna hjá Jóni Jóhannessyni. Jón Jóhannesson, 1956 I. Íslendinga saga. I. Þjóðveldisöld, bls. 53-62.

Hér að neðan er aðdragandanum að stofnun Alþingis á Þingvöllum lýst í stuttu máli. Þar er því lýst hvernig Þingvellir urðu frá upphafi Alþingis allsherjarfé, þ.e. sameign allra landsmanna. Alþingi var stofnað þegar landið var nærri albyggt, en það var um 60 árum eftir að landnám hófst á Íslandi eða um 930. Haldin var mikil hátíð á Þingvöllum sumarið 1930 til að fagna því að 1000 ár voru liðin frá stofnun Alþingis.

Nafn sitt fékk Alþingi af því að það var allra manna þing, það er að segja þing allra frjálsra karlmanna á Íslandi. Konur gátu ekki setið á Alþingi og ekki heldur ófrjálsir menn. Ófrjálsir menn voru kallaðir þrælar, en ófrjálsar konur ambáttir.

Alþingi var frá upphafi fundinn staður á Þingvöllum við Öxará. Áður hafði Grímur geitskór, fóstbróðir Úlfljóts, kannað landið og leitað að hentugum stað fyrir Alþingi sem menn gætu orðið sammála um.

Þá hafði maður að nafni Þórir kroppinskeggi, sem átti land í Bláskógum við Þingvallavatn, drepið þræl eða leysingja og falið líkið. Leysingi var maður sem hafði verið þræll en verið gefið frelsi. Maðurinn sem Þórir drap hét Kolur og Þórir faldi líkið í Kolsgjá. Af því að Þórir faldi líkið var þetta morð.

Þórir var dæmdur fyrir að hafa drepið Kol og var dæmt af honum allt landið í Bláskógum. Það varð þá allsherjarfé, en það merkir að landið varð eign allra landsmanna. Þetta mun hafa verið landið norðan, vestan og sunnan við Þingvallavatn, Þeir sem komu á þingið máttu höggva eldivið í skógum og beita hrossum sínum á heiðum í kringum þingstaðinn.

Alþingi eignaðist Þingvallaland sem allsherjarfé nálægt árinu 930. Hefur Alþingi afsalað sér þessum rétti yfir Þingvallalandi síðar?

Stefán Aðalsteinsson svarar Halldóri Gunnarssyni í Holti

Höfundur er doktor í búvísindum.