Bjarni Fritzson, fyrirliði ÍR, lét mikið að sér kveða í síðari hálfleiknum gegn Val í gær í Austurbergi og skoraði 5 mörk, öll í síðari hálfleik. Liðin mætast í oddaleik um sæti í úrslitum á sunnudag.
Bjarni Fritzson, fyrirliði ÍR, lét mikið að sér kveða í síðari hálfleiknum gegn Val í gær í Austurbergi og skoraði 5 mörk, öll í síðari hálfleik. Liðin mætast í oddaleik um sæti í úrslitum á sunnudag.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÞAÐ er óhætt að segja að jafnræði ríki með ÍR og Val. Bæði lið fóru með 8 stig með sér í úrvalsdeildina, þau luku þar keppni í öðru og þriðja sæti með 25 og 24 stig, og hafa nú unnið hvort annað í undanúrslitum Íslandsmótsins með sömu markatölu, 29:25.

ÞAÐ er óhætt að segja að jafnræði ríki með ÍR og Val. Bæði lið fóru með 8 stig með sér í úrvalsdeildina, þau luku þar keppni í öðru og þriðja sæti með 25 og 24 stig, og hafa nú unnið hvort annað í undanúrslitum Íslandsmótsins með sömu markatölu, 29:25. ÍR jafnaði metin í miklum baráttuleik á heimavelli sínum í Austurbergi í gærkvöld og þar með mætast þau í oddaleik að Hlíðarenda á sunnudaginn. Markvarsla Ólafs Gíslasonar hjá ÍR réð úrslitum, hann varði 23 skot, þar af 15 í síðari hálfleik, og það var hann sem gerði útslagið þegar Valsmenn gerðu sig líklega til að jafna á lokakafla leiksins.

Valur var með undirtökin fyrsta stundarfjórðunginn. Pálmar Pétursson byrjaði vel í marki Hlíðarendapilta, varði fimm skot á fyrstu fimm mínútunum og fylgdi þar með eftir grimmdarvörn, 3/2/1, sem virkaði vel gegn ÍR-liðinu framan af. Nema gegn Einari Hólmgeirssyni sem hélt ÍR á floti með þrumufleygum. En þegar Ingimundur Ingimundarson hrökk í gang á vinstri væng ÍR-sóknarinnar tók leikurinn að snúast við. Þessi kraftmikli og baráttuglaði leikmaður, sem fór fyrir sínum mönnum í vörninni allan tímann, tók heldur betur af skarið. Hann skoraði fjögur mörk á skömmum tíma, ÍR náði forystunni og lét hana aldrei af hendi eftir það. Staðan í hálfleik var 13:11.

Jafnræði hélst þó fyrstu 8 mínútur síðari hálfleiks en þá tóku ÍR-ingar frábæra rispu. Þeir skoruðu sjö mörk gegn einu, Ólafur lokaði markinu og fyrirliðinn Bjarni Fritzson, sem hafði haft hægt um sig, skoraði þrjú mörk á rúmri mínútu. Staðan orðin 24:17, en samt var sigurinn ekki í höfn. Valsmenn gáfust ekki upp, bættu enn í varnarleik sinn og sókn ÍR nánast hrundi síðustu 10 mínúturnar. En nær öll skot Breiðhyltinga sem á annað borð hittu á rammann skiluðu mörkum á meðan Ólafur gaf enn í hinum megin. Valsmenn minnkuðu muninn í 27:25 þegar enn voru 3 mínútur eftir en nær komust þeir ekki. Í stöðunni 28:25 varði Ólafur tvisvar frá þeim úr dauðafærum og þar með voru úrslitin endanlega ráðin.

ÍR-ingar skiptu aftur yfir í 6/0 vörnina sína eftir að 3/2/1 virkaði ekki sem skyldi að Hlíðarenda - og hún gafst vel gegn lágvöxnu liði Vals. Það sem gerði gæfumuninn fyrir ÍR-inga, auk markvörslunnar, var að þeir Einar, Ingimundur og Bjarni lyftu leik sínum hver á sínum kafla leiksins, þegar á þurfti að halda. Aðrir skiluðu sínu, en það sem helst háir ÍR-ingum, og setur spurningarmerki við framhaldið hjá þeim, er skortur á breidd. Hún er mun minni en í fyrra og getur komið liðinu í koll í lokabaráttunni.

Það er hins vegar næg breidd í Valsliðinu - samt er merkilegt að það skuli komið eins langt og raun ber vitni, miðað við þau áföll sem á því hafa dunið. Markús Máni Michaelsson kom inn á undir lok fyrri hálfleiks en á greinilega nokkuð í land ennþá og kom ekki frekar við sögu. Roland Eradze hefur setið utan vallar í allan vetur og reynsluleysið háir Pálmari í markinu sem ásamt afleysingamanni sínum varði ekki skot í tæpan hálftíma. Bjarki Sigurðsson hefur verið óheppinn með meiðsli og hann meiddist í hné þegar hann minnkaði muninn í 27:25. Hvað liðsstjórn Vals var að hugsa þegar hún hleypti honum aftur inn á, höltum, í töpuðum leik, átta ég mig hins vegar ekki á.

En Valsmenn hafa spilað vel úr sínum hópi þó það skilaði ekki sigri í þessum leik. Varnarleikurinn var ágætur en sóknin ekki. Þar ríkti meðalmennskan, enginn reis upp úr henni, nema kannski Hjalti Pálmason af og til. Það er hins vegar ekki hægt að afskrifa Val. ÍR er betra lið, þegar einstaklingarnir eru bornir saman, en það ræður ekki alltaf úrslitum.

Víðir Sigurðsson skrifar