Tony Blair á breska þinginu er hann staðfesti, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um evrópsku stjórnarskrána, líklega að loknum kosningum á næsta ári. Hafa sinnaskipti hans í málinu mælst illa fyrir í flokki hans, Verkamannaflokknum, en sagt er, að han
Tony Blair á breska þinginu er hann staðfesti, að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um evrópsku stjórnarskrána, líklega að loknum kosningum á næsta ári. Hafa sinnaskipti hans í málinu mælst illa fyrir í flokki hans, Verkamannaflokknum, en sagt er, að han — Reuters
NÁINN samstarfsmaður Tony Blairs, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær, að hann ætlaði að leiða Verkamannaflokkinn í næstu kosningum en mikill orðrómur er um, að Blair hyggist segja af sér, jafnvel strax í sumar.

NÁINN samstarfsmaður Tony Blairs, forsætisráðherra Bretlands, sagði í gær, að hann ætlaði að leiða Verkamannaflokkinn í næstu kosningum en mikill orðrómur er um, að Blair hyggist segja af sér, jafnvel strax í sumar. Eru frammámenn í flokknum sagðir hafa ákveðið að slá skjaldborg um Blair vegna áhyggna af vaxandi einangrun hans, ekki aðeins innan flokksins, heldur einnig innan ríkisstjórnarinnar.

John Reid, heilbrigðisráðherra Bretlands, sagði í gær, að Blair hefði alls ekki á prjónunum að segja af sér, þvert á móti sæktist hann eftir því að leiða Verkamannaflokkinn í næstu kosningum og gegna embætti forsætisráðherra þriðja kjörtímabilið. Óbreyttir þingmenn flokksins og þar á meðal öruggir stuðningsmenn Blairs segja hins vegar, að fyrst verði hann að endurheimta þá virðingu, sem borin var fyrir honum sem leiðtoga.

"Hann virðist vera einangraður og innan flokksins er mikil óvissa um framtíð hans. Þótt það sé ótrúlegt, þá eru allir að tala um, að hann muni segja af sér á þessu ári," sagði einn þingmanna Verkamannaflokksins en vaxandi einangrun Blairs stafar af Íraksstríðinu og fylgispekt hans við stefnu Bandaríkjamanna þar og í Mið-Austurlöndum. Þá hafa sinnaskipti hans í Evrópumálunum ekki mælst vel fyrir en hann er sakaður um hafa tekið fljótfærnislega ákvörðun um þjóðaratkvæði um evrópsku stjórnarskrána fyrir þrýsting frá Jack Straw utanríkisráðherra og Gordon Brown fjármálaráðherra.

Vilja ekki taka þátt í hernaði Bandaríkjamanna

Það er ekki síst Íraksstríðið, sem ætlar að verða Blair þungt í skauti, en breska blaðið The Guardian sagði í gær, að sú ákvörðun hans að senda ekki fleiri hermenn til Íraks væri til komin af því, að yfirmenn breska hersins hefðu eindregið lagst gegn því. Þeir geta að vísu ekki tjáð sig opinberlega en breskir fjölmiðlar segja, að þeir séu mjög óánægðir með framgöngu bandaríska hersins í Írak og vilji ekki dragast inn í blóðugar hernaðaraðgerðir eins og þær, sem Bandaríkjamenn hafa verið með í Fallujah. Blair reitti hins vegar marga þingmenn síns eigin flokks til reiði er hann lýsti yfir stuðningi við aðfarir Bandaríkjamanna í borginni.

Bresku herforingjarnir hafa einnig gert það ljóst, að ekki komi til mála, að breskt herlið verði sett undir yfirstjórn Bandaríkjamanna og þeir vilja fá fullkomnar upplýsingar um lagalega stöðu breska herliðsins í Írak eftir væntanlega valdaskipti 30. júní.

Greenstock neitar aðild að bréfi

Mjög harðort bréf 52 fyrrverandi sendiherra og fulltrúa bresku krúnunnar erlendis er einnig mikið áfall fyrir Blair en í því gagnrýna þeir forsætisráðherrann harðlega fyrir stefnuna í Írak og Mið-Austurlöndum og fyrir gagnrýnislausa undirgefni við George W. Bush Bandaríkjaforseta.

Dagblaðið The Times sagði í gær, að Sir Jeremy Greenstock, fulltrúi Blairs og bresku ríkisstjórnarinnar í Bagdad, hefði lagt sitt af mörkum til bréfs sendiherranna og hafði það eftir Oliver Miles, fyrrverandi sendiherra Bretlands í Líbýu, sem átti mikinn þátt í bréfinu, að Greenstock hefði þó ekki af skiljanlegum ástæðum treyst sér til að skrifa undir það.

Greenstock, sem lætur af störfum og fer á eftirlaun nú um helgina, sagði hins vegar í gær, að hann hefði ekki viljað skrifa undir bréfið þar sem hann hefði ekki verið sáttur við ýmislegt í því um Írak. Þá hefðu lokadrögin ekki verið borin undir hann.