Verk eftir Hörpu Björnsdóttur á sýningunni í Galleríi Sævars Karls.
Verk eftir Hörpu Björnsdóttur á sýningunni í Galleríi Sævars Karls.
HARPA Björnsdóttir opnar sýningu á verkum sínum í Galleríi Sævars Karls kl. 17 í dag, föstudag. Sýningin ber yfirskriftina "klifun - amorous / amorpous".

HARPA Björnsdóttir opnar sýningu á verkum sínum í Galleríi Sævars Karls kl. 17 í dag, föstudag. Sýningin ber yfirskriftina "klifun - amorous / amorpous".

Að þessu sinni sýnir Harpa innsetningu þar sem hún tekur goðsöguna um einhyrninginn og jómfrúna og mátar hana við okkar nútíma. Innsetningunni er ætlað að vekja andstæð og blendin hughrif; kveikja hugmyndir um fegurð, erótík, helgiathafnir, klúrheit, kímni, missi, fórn, ást og eyðileggingu, en fyrst og fremst söknuð eftir goðsögum og ævintýrum.

Harpa hefur starfað að myndlist frá árinu 1983, haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum af ýmsu tagi, bæði hér á landi og erlendis.

Komið víða við á ferlinum

Í gegnum tíðina hefur hún í verkum sínum notað þann efnivið sem hæfir viðfangsefninu hverju sinni, svo sem eins og málverk, grafík, skúlptúr, ljósmyndir, innsetningar og texta. Hún hefur hlotið starfslaun listamanna, auk annarra styrkja og viðurkenninga, verið virk í félagsmálum listamanna og einnig tekið að sér ýmis störf í menningargeiranum á liðnum árum.

Sýningin stendur til 19. maí og er opin á verslunartíma.