Atriði úr kvikmyndinni Mariages.
Atriði úr kvikmyndinni Mariages.
Þ ar er nú komið bíókvöldum að tilviljunin tók völdin alfarið þegar verið var að skoða sig um í Bédarieux, talsverðum fjallabæ, fimmtíu mínútur í austur frá Montpellier.

Þar er nú komið bíókvöldum að tilviljunin tók völdin alfarið þegar verið var að skoða sig um í Bédarieux, talsverðum fjallabæ, fimmtíu mínútur í austur frá Montpellier.

Við vorum nýkomin yfir eina af þeim veglegu brúm sem einkenna bæinn - en hann er í miðri náttúruparadís, umlukinn hæðum og klettabeltum -þegar Stjörnubíóskiltið blasti við okkur, STAR, úr rauðu neonljósi. Nánar tiltekið við St. Louis götu.

Aðdragandinn að bíóinu var betri en nokkurt bíó, því leiðin liggur meðfram stórum bakgarði þangað sem minnst tíu hestar gætu fengið magafylli af fögru grasi, undir tveimur stórum trjám. Á það gætu horft íbúar á mörgum hæðum í húsalengju með ómáluðum gluggahlerum við garðinn, og svo listamennirnir með verkstæði sín þeim megin sem gengið er inn í bíóið.

Hér eru þrír salir, og eingöngu sýndar nýjar myndir sem eru ofarlega á listum um þessar mundir. Veggir uppi og niðri eru fóðraðir með plakötum. Allt er þetta svo bíómatarlegt að það var ekki hægt annað en skella sér á eina, þótt það hefði alls ekki verið meiningin á þessum degi í þessari ferð.

Bíófélagar eru sammála um að STAR beri þess merki að þarna eigi að reka bíó hvað sem hóar og allur metnaður í það lagður. Ég sé mest eftir að hafa ekki rætt ennþá meira við konuna í miðasölunni, spurt hana um sögu bíósins og hvernig gengi. Þegar ég spurði hana hvort Mariages! (Hjónabönd!) væri vinsæl sagði hún: Já, eins og allt sem hjónaböndum viðkemur, hvort sem það er til hins betra eða verra.

Ég ákvað að mennta mig aðeins betur á þessu sviði, og skoða hvað tiltölulega ungur franskur kvenleikstjóri, Valérie Guignabodet, er að hugsa um hjónaband, í þessari splunkunýju mynd.

Mér þótti ég hins vegar þegar upp var staðið fræðast síður um hjónabönd heldur en um franska hugsun og kvenlega - enda er útkoma ferðar alltaf önnur en ætlaður tilgangur hennar.

Mariages! reyndist nokkuð sófistíkeruð og á köflum níðangurslega fyndin sápa um framhjáhald og hjónabönd og frelsi. Það er hægt að mæla með henni sérstaklega fyrir konur því leikstjórinn hefur fiskað upp óvenju sjarmerandi og fagra karlleikara, og bera þeir á þann hátt af kvenfólkinu í myndinni - en hins vegar ekki um karakterstyrk.

Það sniðugasta þótti mér hins vegar spilaborgin sem hrundi. Þegar upp komst um eitt framhjáhald í brúðkaupsveislunni (en myndin er veislan og allt kringum hana) þá hratt það af stað keðjuverkun svo ekki stóð steinn yfir steini í morgunsárið.

Í lokin var þó unnið uppbyggingarstarf, og gekk það hratt fyrir sig. Bíófélagar voru því síður en svo niðurbrotnir þegar þeir leituðu sér að veitingastað í Bédarieux og lentu á La Forge (Smiðjunni) á av. Abbé-Tarroux númer 22.

Veitingasalurinn er sérstaklega fallegur, með háum steinhvelfingum, og stórum arni fyrir miðjum sal sem eldur brann í þetta bíókvöld. Þetta er gömul járnsmiðja og fá ýmsir fylgihlutir úr henni að njóta sín - allt úthugsað og flott, og mikil stemning í þessu stóra rými.

Þá var sérstök heppni að við sátum ein að þessu öllu í svona stundarfjórðung, áður en kvöldið brast á um áttaleytið. Þrjár ungar stúlkur gengu um beina og fannst ekki arða á þeirra framgöngu allt kvöldið.

Við völdum okkur ódýrasta matseðil, á fimmtán evrur. Bæði borðuðu nýjan geitaost í forrétt. Annað borðaði í aðalrétt nautagellu (kinn) með sósu úr rauðvíni frá Faugeres, sem er þarna rétt í grennd - og hitt fiskrétt úr lotte (holdgóðum vatnafiski sem ég kann ekki að nefna á íslensku). Í eftirrétt var svo fyrir annað bökuð pera, og fyrir hitt sjarlottukaka með kremi úr heslihnetum (marron). Með þessu öllu var tilbehör, og er skemmst frá því að segja að matreiðsla og útlit á matnum var í háum gæðaflokki. Nautakjötsrétturinn var mesta nýmælið fyrir mér, bragðsterkur og meyr. Ég hefði reyndar ekki áttað mig á því hvaðan af skepnunni hann kom nema af því ég spurði og ein af gengilbeinunum góðu kleip í kinnina á sér til útskýringar.

Þar sem við bíófélagar erum ekki vínþekkjarar reynum við yfirleitt að ráðfæra okkur lauslega við þjóninn þegar við veljum vín. Hér tókum við það sem hafði höfðað mest til okkar nafnsins vegna, Chateau Caussiniojouls, 2001, frá Faugeres. Enda kom það á daginn að nafnið skrautlega hefur sögu, sem hægt er að rekja alveg aftur til ársins 804, eins og á flöskunni stendur. Þar fyrir utan er þetta sérlega ljúft vín, á 17 evrur, þótt við kunnum sem sagt ekki að lýsa því með orðaforða atvinnufólks. En við komum okkur saman um að það hefði ýmsa undirtóna.

Allt þetta kostaði 57 evrur fyrir tvo, með fordrykk og kaffi. Ég mundi segja um þessa stofnun, eins og Michelin segir um tveggja stjörnu staði: vel þess virði að taka á sig krók. En það mundi ekki endilega þýða að vaða inn án þess að eiga frátekið, og síst um helgar.