FLUGFÉLAGIÐ Atlanta og Excel Airways, sem Atlanta á stóran hlut í, hafa samið við bresku ferðaskrifstofukeðjuna Travel City um leigu á tveimur Boeing 747-200 þotum í verkefni til árs.

FLUGFÉLAGIÐ Atlanta og Excel Airways, sem Atlanta á stóran hlut í, hafa samið við bresku ferðaskrifstofukeðjuna Travel City um leigu á tveimur Boeing 747-200 þotum í verkefni til árs. Verðmæti samningsins er um 60 milljónir bandaríkjadala eða kringum 4,3 milljarðar íslenskra króna.

Travel City er með stærstu ferðaskrifstofum Bretlandseyja. Atlanta og Excel Airways sameinast um verkefnið. Hafþór Hafsteinsson, forstjóri Atlanta, segir þetta sýna vel hvernig félögin tvö geti sameiginlega tekið að sér viðamikil verkefni.

Samið er um flug milli Manchester og Gatwick í Englandi annars vegar og Orlando og Las Vegas í Bandaríkjunum hins vegar. Um 200 manns munu starfa við flutningana í sumar og um 112 manns næsta vetur, flestir frá Bretlandi. Þá eru í samningnum ákvæði um endurnýjun hans til tveggja ára. Komi til þess er heildarverðmæti hans um 13 milljarðar króna.

Atlanta rekur nú yfir 35 þotur og Excel Airways átta. Hefur síðarnefnda félagið, sem er eitt stærsta leiguflugfélag Bretlands, sérhæft sig í flugi til vinsælla ferðamannastaða við Miðjarðarhaf, í Austur-Evrópu og Karíbahafinu.