Litla stelpan hennar mömmu, litla stelpan hennar mömmu, litla stelpan hennar mömmu syng ég kannski fyrir þig hástöfum á meðan ég kyssi þig og knúsa.

Litla stelpan hennar mömmu, litla stelpan hennar mömmu, litla stelpan hennar mömmu syng ég kannski fyrir þig hástöfum á meðan ég kyssi þig og knúsa. Síðan kemur viðlagið litla stelpan hennar mömmu sinnar, litla stelpan hennar mömmu sinnar og áfram heldur síðan lagið, kannski með örlitlum viðbótum í texta. Ef lítil börn gætu talað eða skilið allt til fullnustu yrðum við fullorðna fólkið eins og hálfvitar. Mig hefur langað að leigja spóluna "Look who's talking" til að horfa á aftur, enda er þetta mynd sem gerir í rauninni grín að okkur fullorðna fólkinu í augum ungbarnsins. Og við hljótum líka að teljast svolítið skrýtin. Endurtekningar, hvort sem er á orðum eða tilbúnum söngtextum, eru nánast endalausar. Síðan býr maður líka til ný orð sem hvergi finnast í neinum orðabókum. Þegar ég baða þig endurtek ég t.d. endalaust orðið kroppulína sem varð reyndar ekki til fyrr en ég fór að baða þig. Með því að endurtaka þetta síðan nógu oft er eins og maður haldi að þú skiljir hlutina eitthvað betur og því getur samtal við þig hljómað svona: litla kroppulínan mín, litla kroppulínan hennar mömmu, já ertu lítil kroppulína? Þetta er náttúrulega alveg út í hött þegar maður fer að spá í það en fylgir okkur öllum væntanlega að einhverju leyti.

T.d. tárast mamma alltaf þegar hún fer að tala barnamál. Barnamál er reyndar heldur ekki til, en til að lýsa því samt má segja að það felist í að breyta alfarið um tóntegund, mynda eitthvert hjal í stað orða og endurtaka síðan sömu hlutina margsinnis. Þegar þú fórst að sýna viðbrögð með brosum og svipbrigðum, gerðist það sama. Endurtekningar eru endalausar þó að allir viti að auðvitað finnist engum sami brandarinn fyndinn tuttugu sinnum.

Meira á þriðjudag.