FRAMKVÆMDASTJÓRN Samfylkingarinnar hefur samþykkt að óska eftir viðræðum við stjórnir þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi um tillögur sem leggja mætti til grundvallar við setningu laga er taki til fjárreiðna stjórnmálaflokka.

FRAMKVÆMDASTJÓRN Samfylkingarinnar hefur samþykkt að óska eftir viðræðum við stjórnir þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi um tillögur sem leggja mætti til grundvallar við setningu laga er taki til fjárreiðna stjórnmálaflokka. Tillögurnar hafi það að markmiði að tryggja gagnsæi er varðar fjáröflun og fjárrreiður stjórnmálaflokka.

Viðræður miði einnig að því að flokkarnir komi sér saman um reglur er varða kostnað við kosningabaráttu.

Í frétt frá Samfylkingunni segir að stjórnmálaflokkar séu mikilvægar stofnanir í lýðræðisskipun landsins, ekki síður en fjölmiðlar. Því sé mikilvægt að trúnaður sé ríkur gagnvart almenningi um fjárreiður flokkanna, gagnsæi ríki um fjáröflun og leikreglur séu skýrar um fjármögnun og kostnað við kosningabaráttu.