HÆSTIRÉTTUR dæmdi í gær karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við tvær stúlkur gegn vilja þeirra, en ákærði var talinn hafa notfært sér það að stúlkurnar gátu ekki spornað við kynferðisbrotunum sökum ölvunar og...

HÆSTIRÉTTUR dæmdi í gær karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði við tvær stúlkur gegn vilja þeirra, en ákærði var talinn hafa notfært sér það að stúlkurnar gátu ekki spornað við kynferðisbrotunum sökum ölvunar og svefndrunga. Auk fangelsisrefsingar var ákærði einnig dæmdur til að greiða hvorri stúlkunni um sig hálfa milljón króna í bætur.

Ákærði viðurkenndi að hafa haft samræði við báðar stúlkurnar en neitaði sök og kvað stúlkurnar hafa tekið þátt í því sem fram fór af fúsum og frjálsum vilja. Héraðsdómur taldi hins vegar sannað, að stúlkurnar hefðu báðar verið þannig á sig komnar að þær hefðu ekki sökum ölvunar og svefndrunga getað spornað við samræðinu.

Fram kom að stúlkurnar þekktu báðar ákærða og báru fullt traust til hans. Báru þær að ekkert kynferðislegt hefði vakað fyrir þeim er þær fóru á heimili hans og ekkert slíkt hefði þar átt sér stað með þeirra samþykki. Í héraðsdómi segir, að vitnisburður stúlknanna beggja sé stöðugur, trúverðugur og í góðu innbyrðis samræmi og sé því lagður til grundvallar um, að það sem fram fór hafi ekki gerst með samþykki þeirra. Styðjist þessi niðurstaða dómsins við það sem fram kom við læknisskoðun beggja stúlknanna og að hluta með sálfræðivottorðum beggja.

Með dómi Hæstaréttar var dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 7. október 2003 staðfestur.

Málið dæmdu hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Pétur Kr. Hafstein. Verjandi ákærða var Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl. og sækjandi Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari hjá ríkissaksóknara.