Hilmar, Kristín og Jóhann ætla að fagna fimm ára afmælinu með glæsibrag á morgun.
Hilmar, Kristín og Jóhann ætla að fagna fimm ára afmælinu með glæsibrag á morgun. — Morgunblaðið/Ásdís
TILRAUNAELDHÚSIÐ var stofnað fyrir fimm árum og hefur verið býsna virkt síðan, staðið fyrir allskyns uppákomum, bæði heima og erlendis.

TILRAUNAELDHÚSIÐ var stofnað fyrir fimm árum og hefur verið býsna virkt síðan, staðið fyrir allskyns uppákomum, bæði heima og erlendis.

Yfirkokkarnir; þau Kristín Björk Kristjánsdóttir, Hilmar Jensson og Jóhann Jóhannsson, segja blaðamanni frá því, kúnstug á svip, að þrátt fyrir áfangann verði hátíðin á morgun engin nostalgíuferð.

"Þetta verður eins og hver önnur uppákoma hjá okkur," útskýrir Hilmar. "Allir þeir sem troða upp verða með nýtt efni."

Andi allra uppákoma eldhússins í gegnum tíðina hefur verið þægilega laus við hroka og yfirlæti, nokkuð sem getur fylgt starfsemi af þessu tagi.

"Það hefur verið mjög ríkt í okkar starfi að þetta eigi að vera skemmtilegt," segir Jóhann. "Áherslan er á leikgleðina."

Hilmar segir jafnframt að tilviljanir hafi ráðið starfseminni mikið til.

"Fyrst þegar við hittumst áttu þetta bara að vera einir tónleikar. Allt í framhaldinu hefur komið einhvern veginn af sjálfu sér. Það hefur aldrei verið neinn stofnanabragur á þessu hjá okkur. En markmiðin hafa alltaf verið mjög skýr."

Allt kemur það til baka

Eitt af höfuðmarkmiðum eldhússins hefur verið að búa til vettvang fyrir ólíka listamenn til að skapa og koma hugmyndum af stað, segir Jóhann. Þrenningin samsinnir því að sjálft ferlið sé í raun mikilvægara heldur en endilega harðar niðurstöður eða útkomur úr einstökum verkefnum. Vinnan í eldhúsinu hefur þá verið mestmegnis ólaunuð.

"Það sem við erum að fá til baka er mikill kraftur og hreinlega næring," segir Kristín. "Þetta gengur allt til baka og hefur haft góð áhrif á okkur, sem sjálfstæða listamenn."

Kokkarnir segja að það sé þá einstakt að vinna svona vinnu hér á Íslandi.

"Það er frábært að vera í þessu sérstaka umhverfi," segir Jóhann. "Smæðin og nálægð ólíkra hópa við hvor annan gerir að verkum að það er mikill drifkraftur og sköpun í gangi. Þegar maður lýsir þessu fyrir fólki erlendis verður það agndofa."

Hilmar tekur undir þetta og segir að í erlendum stórborgum t.d. sé gjáin á milli fjölmiðla, ólíkra listamanna og framkvæmdaraiðla gríðarlega stór.

Framtíð Tilraunaeldhússins er óráðin - eins og alltaf.

"Það er margt framundan," segir Kristín.. "Og það hefur kannski haldið okkur á floti allan þennan tíma að við gerum það sem við viljum þegar við viljum."

Forskot verður tekið á afmælissæluna þegar myndlistarsýningin Vanefni verður opnuð kl. 15.00. Afmælisdagskráin hefst kl. 17.00. og stendur fram á nátt. Aðgangur er ókeypis. this.is/kitchenmotors