UMRÆÐUM á Alþingi um skýrslu nefndar á menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum, sem hófust eftir hádegi á miðvikudaginn, lauk ekki fyrr en laust fyrir kl. 1 aðfaranótt fimmtudagsins og höfðu margir þingmenn kvatt sér hljóðs við umræðurnar.

UMRÆÐUM á Alþingi um skýrslu nefndar á menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum, sem hófust eftir hádegi á miðvikudaginn, lauk ekki fyrr en laust fyrir kl. 1 aðfaranótt fimmtudagsins og höfðu margir þingmenn kvatt sér hljóðs við umræðurnar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, sagði undir lokin að með þeim miklu umræðum sem farið hefðu fram hefðu menn fengið enn umfangsmeiri umfjöllun um málið. "Við erum búin að fá meiri og dýpri umræðu um þetta mál heldur en ellegar hefði gerst. Þar af leiðandi má búast við enn vandaðri vinnubrögðum varðandi afgreiðslu þessa mikilvæga máls af hálfu þingsins."

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði skýrslu menntamálaráðherra sýna að það ríkti fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði og að ástandið væri harla gott. Vissulega væri bent á einkenni samþjöppunar en mál væru ekki þannig vaxin að þau kölluðu á lagasetningu. Árni M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, sagði skýrsluna sýna klárlega að merki væru um óæskilega samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og í henni væri bent á að lagasetning væri beinlínis æskileg. Þetta væri meginniðurstaða skýrslunnar.

Pétur Blöndal sagðist alla jafna vera mótfallinn óþarfa lagasetningum sem snertu viðskipta- og atvinnulífið enda hefðu menn sérstök samkeppnislög. Hann sagði á hinn bóginn að sér hefði orðið ljóst eftir lestur skýrslunnar að ekki væri skjól eða hald í samkeppnislögum að því er snerti fjölmiðlamarkaðinn. Fjölmiðlar væru fjórða valdið í samfélaginu og því væri nauðsynlegt að bregðast við með lagasetningu.

Jóhann Ársælsson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að með frumvarpinu væri að því er hann best vissi í fyrsta skipti frá því lög um prentfrelsi voru sett á Íslandi verið að leggja það til að prentfrelsi verði tekið af gagnvart einhverjum aðila á Íslandi. "Ég hef ekki nein dæmi um það neins staðar frá, og hef reynt að spyrja, að menn hafi látið sér detta það í hug fyrr að það væri hægt eða það væri afstaða þeirra að það skuli setja lög sem banna einhverjum að gefa út blað. En hér er það sem sagt komið á blað," sagði Jóhann.