VALGERÐUR Sverrisdóttir viðskiptaráðherra upplýsti á Alþingi í gær að hún myndi ekki á þessu þingi leggja fram frumvarp um breytingar á samkeppnislögum er varða samskipti samkeppnisyfirvalda og lögreglunnar.

VALGERÐUR Sverrisdóttir viðskiptaráðherra upplýsti á Alþingi í gær að hún myndi ekki á þessu þingi leggja fram frumvarp um breytingar á samkeppnislögum er varða samskipti samkeppnisyfirvalda og lögreglunnar. "Frumvarpsdrögin hafa verið lögð fram í ríkisstjórn en ekki verður lagt fram frumvarp til laga á þessu þingi. Það er ljóst. Vinnunni er hins vegar engan veginn lokið."

Ráðherra neitaði að gera frumvarpsdrögin opinber. Sagði hún að umrætt mál væri ekki útrætt milli þeirra ráðherra sem þarna ættu í hlut, þ.e. viðskiptaráðherra og dómsmálaráðherra. Þessi ummæli ráðherra féllu vegna fyrirspurnar Bryndísar Hlöðversdóttur, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í gær.

Bryndís spurði ráðherra einnig um málið á Alþingi um miðjan mars sl., en þá kvaðst ráðherra vonast til að geta lagt umrætt frumvarp fram á Alþingi á næstu dögum. Nefnd sem skipuð var í september til að fara yfir samskipti samkeppnisyfirvalda og lögreglunnar, í kjölfar rannsóknar á meintu samráði olíufélaganna, skilaði af sér niðurstöðu til dómsmálaráðherra og viðskiptaráðherra í upphafi ársins. Síðan hefur málið verið til umfjöllunar í ráðuneytunum.

Enn eitt leyniplaggið

Bryndís, sem og aðrir þingmenn stjórnarandstöðu, gagnrýndu það á Alþingi í gær að málið; niðurstöður nefndarinnar og frumvarpið, skyldi ekki enn verið komið inn á Alþingi. Sagði Bryndís m.a. að skýrslan hefði þar með bæst í hóp leyniplagga ríkisstjórnarinnar. "Ráðherra hefur þá ábyrgð að koma með tillögu til úrbóta í þessum efnum og hún verður að rísa undir þeirri ábyrgð."

Valgerður upplýsti í umræðunni að nefndin hefði komist að þeirri sameiginlegu niðurstöðu að Samkeppnisstofnun rannsakaði mál fyrirtækja og lögreglan mál einstaklinga. Því hefði hins vegar verið haldið fram að sú tilhögun stæðist ekki mannréttindasáttmála Evrópu. Ráðherra mótmælti þeirri túlkun. "Ekki verður með neinu móti séð að slík tilhögun brjóti gegn sáttmálanum," sagði hún.

Síðar sagði ráðherra: "Ég vil ítreka að þetta mál verður áfram til umfjöllunar. Það er ekkert ófremdarástand í þjóðfélaginu. Ég vil þó að það verði skýrt hvar mörkin liggja milli þessara mikilvægu stofnana í okkar samfélagi þannig að allir viti hvað er hvurs. Ég reikna með - því ég reikna nú með að þessi ríkisstjórn haldi velli - að við getum átt von á frumvarpinu á haustdögum."