Önnur umræða um frumvarp um útlendinga fór fram á Alþingi í gær.
Önnur umræða um frumvarp um útlendinga fór fram á Alþingi í gær. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
TÖLUVERT var rætt um hina svokölluðu 24 ára reglu, í frumvarpi til breytinga á útlendingalögum, á fundum allsherjarnefndar Alþingis um frumvarpið. Frá þessu er skýrt í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar sem rætt var í umræðum á Alþingi í gær.

TÖLUVERT var rætt um hina svokölluðu 24 ára reglu, í frumvarpi til breytinga á útlendingalögum, á fundum allsherjarnefndar Alþingis um frumvarpið. Frá þessu er skýrt í nefndaráliti meirihluta nefndarinnar sem rætt var í umræðum á Alþingi í gær. Samkvæmt reglunni þarf erlendur maki íslensks ríkisborgara að vera orðinn 24 ára til að geta fengið dvalarleyfi hér á landi sem aðstandandi. Meirihluti allsherjarnefndar gerir þó áfram ráð fyrir því að reglan standi í frumvarpinu.

Önnur umræða um frumvarpið fór fram á Alþingi í gær. Gert er ráð fyrir því að það verði afgreitt sem lög frá Alþingi í dag. Jónína Bjartmarz, þingmaður Framsóknarflokksins, gerir fyrirvara við aldurstakmörk í frumvarpinu. Hún segir að ástin spyrji hvorki um aldur né landamæri. Jónína styður þó nefndarálit meirihluta nefndarinnar að öðru leyti.

Umdeilt ákvæði í Danmörku

Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, ítrekaði í gær að verndarsjónarmið lægju að baki 24 ára reglunni; með því væri verið að koma í veg fyrir nauðungarhjónabönd. Hann benti á að sambærilegt ákvæði væri í dönskum lögum. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og framsögumaður minnihluta allsherjarnefndar, benti á að umrætt ákvæði í dönskum lögum væri mjög umdeilt. "Við viljum þessa svokölluðu 24 ára reglu út," sagði hann er hann mælti fyrir nefndaráliti minnihlutans. "Við viljum einnig fá 66 ára regluna út og við viljum ekki veita heimild til Útlendingastofnunar um að fara fram á lífsýnatöku."

Geti hafnað lífsýnatöku

Hann ítrekaði að 24 ára reglan ætti eftir að snerta réttindi tugi Íslendinga á hverju ári til að sameinast maka sínum á grundvelli hjúskapar.

Meirihluti allsherjarnefndar leggur til að við ákvæði 7. gr. frumvarpsins sem fjallar um heimild til leitar verði bætt ákvæði um að leit skuli ákveðin með úrskurði dómara nema sá sem í hlut á samþykki hana eða brýn hætta sé að bið eftir úrskurði dómara valdi sakarspjöllum. Þá leggur nefndin til að orðalagi í 7. gr. sem fjallar um heimild Útlendingastofnunar til að krefjast lífsýna til að staðfesta skyldleika, verði breytt svo ljóst sé viðkomandi hafi ætíð heimild til að hafna lífsýnatöku.