Félagsmálayfirvöld í borginni ætla að leita að húsnæði fyrir heimilislausa.
Félagsmálayfirvöld í borginni ætla að leita að húsnæði fyrir heimilislausa. — Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
FÉLAGSMÁLARÁÐ Reykjavíkurborgar hefur falið félagsmálastjóra borgarinnar að kanna möguleika á að finna húsnæði sem hentar heimilislausum.

FÉLAGSMÁLARÁÐ Reykjavíkurborgar hefur falið félagsmálastjóra borgarinnar að kanna möguleika á að finna húsnæði sem hentar heimilislausum. Í minnisblaði frá formanni ráðsins, Björk Vilhelmsdóttur, kemur fram að af þeim 85 sem taldir eru heimilislausir í Reykjavík er nær helmingur, eða 40 einstaklingar, "algjörlega á götunni". Aðrir hafa ýmist tímabundinn dvalarstað, eru á áfangaheimilum, í fangelsum eða á sjúkrastofnunum.

Átta eru á biðlista eftir plássi á heimili fyrir heimilislausa á Miklubraut 20, en þar búa 7-8 manns. Jafnlangur biðlisti er eftir plássi á Miklubraut 18 en þar er rekið áfangaheimili fyrir einstaklinga sem eru heimilislausir en hafa hætt neyslu vímuefna. Félagsþjónustan og Reykjavíkurborg leggja fé til rekstrar þessara heimila en rekstur er í höndum Samhjálpar.

Móta þarf heildstæða stefnu

Lára Björnsdóttir, félagsmálastjóri í Reykjavík, segir að málefni heimilislausra séu á margra ábyrgð. Því sé samvinna heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda og sveitarfélaga mikilvæg til að leysa úr vanda þeirra sem hvergi eiga höfði sínu að halla. "Það sem þyrfti að gera er að þessir aðilar taki höndum saman og móti heildstæða stefnu um hvernig á að leysa þessi mál," segir Lára.

Hún segir félagsmálaráðherra nú þegar hafa boðað félagsmálastjóra nokkurra sveitarfélaga á fund í næstu viku til að ræða vanda heimilislausra, en ráðherra greindi frá því að hann hygðist boða til slíks fundar í samtali við Morgunblaðið 22. apríl sl. Lára segir að hún hafi hvatt félagsmálaráðherra til þess að halda fundinn í samvinnu við heilbrigðisráðuneyti.

Lára segist bjartsýn á að skriður sé kominn á úrlausn á vanda heimilislausra. Ráðherrar virðist fúsir til að taka á vandanum og félagsmálaráð borgarinnar einnig.

Erfitt að koma skjólstæðingum félagsþjónustu inn á geðdeildir

Eins og fram kom í grein sem birt var í Tímariti Morgunblaðsins hinn 18. apríl sl. eru 32 einstaklingar taldir geðfatlaðir af þeim 102 sem taldir eru heimilislausir. Spurð um úrræði fyrir þann hóp segir Lára að Félagsþjónustan hafi ákveðin búsetuúrræði fyrir þann hóp. Hins vegar verði hugsanlega alltaf einhverjir sem ekki sé hægt að ná til. Hún segir vanda þess hóps vera bæði á ábyrgð heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda.

Spurð að því hvort hún viti til þess að heimilislausu geðfötluðu fólki hafi verið vísað frá geðdeildum hérlendis segist hún ekki vilja orða það svo. "Við eigum hins vegar stundum erfitt með að koma þeim inn. Og við getum ekki útvegað búsetuúrræði af því að fólkið er of veikt," segir Lára.

Félagsþjónustan hefur rekið stuðningsþjónustu fyrir geðfatlaða. Heilbrigðisráðherra setti nýverið á fót færanlegt teymi fagfólks til að sinna þeim hópi geðfatlaðra sem hlýtur meðferð utan stofnana. Lára segist hafa lagt til að fulltrúi félagsþjónustunnar myndi verða hluti af teyminu en það hafi ekki gengið eftir.

Lára segir Félagsþjónustuna vinna náið með Félagsbústöðum að því að finna sérhæfð búsetuúrræði fyrir ýmsa hópa, s.s. geðfatlaða, sem eigi erfitt með að búa í t.d. hefðbundinni blokkaríbúð. Þá segir hún að það geti verið erfitt fyrir fáliðað stuðningsheimili fyrir geðfatlaða að taka við mjög erfiðum einstaklingum. Oft geti einstaklingar þó búið sjálfstætt, en úrræðin séu ekki alltaf fyrir hendi. "Það er ekki nóg að koma mönnum inn í hús, heldur þarf sérþjálfað starfsfólk og mikla þjónustu. Í raun og veru þarf að vera hægt að skraddarasauma úrræði fyrir hvern og einn."

Tvisvar þurft að vísa frá gistiskýli vegna plássleysis

Á minnisblaði sem Björk Vilhelmsdóttir lagði fram nýlega kemur fram að aðstæður heimilislausra séu mismunandi, hópurinn sé breytilegur og engin skilgreining liggi fyrir á hvað í heimilisleysi felist. "Vert er að hafa í huga að ekki vilja allir þeir sem eru heimilislausir vegna geðrænna veikinda og eða vímuefnavanda fá meðferð eða húsnæði sem byggist á fastri búsetu," segir Björk.

Í Gistiskýlinu í Þingholtsstræti rúmast 15 manns. Undanfarið hafa dvalist þar 7-8 manns í senn. Björk segir það hafa tvisvar sinnum gerst á þessu ári að einstaklingum hafi verið vísað frá skýlinu vegna plássleysis. Það sem af er árinu hafa 8 manns gist meira en 50 nætur í skýlinu.