MORGUNBLAÐIÐ hefur orðið við ósk Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns um að birta eftirfarandi bréf í heild sinni: Stjórn Lögmannafélags Íslands Álftamýri 9 108 Reykjavík Seltjarnarnesi, 29.04.

MORGUNBLAÐIÐ hefur orðið við ósk Einars Gauts Steingrímssonar hæstaréttarlögmanns um að birta eftirfarandi bréf í heild sinni:

Stjórn Lögmannafélags Íslands

Álftamýri 9

108 Reykjavík

Seltjarnarnesi, 29.04.2004

Efni: Tilskrif formanns félagsins í Tímariti lögfræðinga, 1. hefti 54. árg. í mars 2004, undir yfirskriftinni "Græðgi valdsins."

Tilefni þessa bréfs er að formaður LMFÍ ritaði í ofangreindu Tímariti lögfræðinga pistil undir yfirskriftinni "Græðgi valdsins". Þar segir á bls. 3:

Ekki skal bætt miklu við umræðu sem varð um síðustu skipun dómara í Hæstarétt. Hversu ágætur sem hinn nýi dómari er dylst engum að málefnalegur samanburður skilaði öðrum umsækjendum honum framar. Dómsmálaráðherra taldi gagnrýni hins vegar að engu hafandi. Af viðbrögðunum mátti helst skilja að Hæstiréttur væri klíka sem vildi velja nýja dómara sjálf.

Í pistli þessum ritar Gunnar Jónsson undir sem formaður LMFÍ en sleppir starfsheiti sínu og kemur þannig eingöngu fram í nafni félagsins. Þar heggur hann til dómsmálaráðherra og nýskipaðs dómara við Hæstarétt Íslands. Hann getur þess hvergi, sem hefði verið viðeigandi, að hann er starfsfélagi eins umsækjandans sem var ósáttur við skipan mála. Réðst formaðurinn að nýskipuðum hæstaréttardómara með því að gefa honum fyrst prik en lemja hann síðan með því. Hann viðhafði ummæli sem á engan hátt fást staðist. Tel ég málið þess eðlis að stjórn félagsins verði að fjalla um það og ég eigi kröfur til þess sem félagsmaður í LMFÍ.

Formaður félagsins verður að gæta sérstaklega að sér í málum sem þessum. Félagið hefur lögbundið hlutverk. Formaðurinn fer hér út fyrir hlutverk þess og þar með hlutverk sitt sem formanns. Slíkt er með öllu óheimilt, sbr. 3. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn.

Formaðurinn kastar stríðshanskanum til dómsmálaráðherra og fremur eigið hæfismat á sitjandi hæstaréttardómara. Hvorugt er viðeigandi. Auk þess byggjast ummælin á röngum fullyrðingum og sleggjudómum eins og á eftir verður rakið. Þessi framganga er mjög alvarleg í ljósi þess að okkur lögmönnum er skylt að vera í LMFÍ. Við getum ekki sagt okkur úr félaginu þótt við kysum og þurfum því að vera lausir við svona málflutning í okkar nafni. Félagafrelsi og tjáningarfrelsi verið talið samofið með ýmsum hætti. Þessi tjáning formannsins í nafni okkar félagsmanna er ámælisverð. Ummælin eru til þess fallin að varpa rýrð á hann sjálfan og þar með á félagið. Hann getur ekki verið trúverðugur sendiboði LMFÍ í málinu vegna tengsla við einn umsækjanda, því síður sjálfskipaður. Hæstiréttur hafði æskt þess að fá menn í réttinn sem væru best liðtækir í að afgreiða skrifleg kærumál í þriggja manna dómi, og taldi starfsfélaga formannsins annan tveggja sem heppilegastir væru í það hlutverk. Kunna vonbrigðin því að hafa orðið meiri fyrir vikið.

Lögmannafélagið er skv. lögum nr. 77/1998 órjúfanlega tengt starfsréttindum lögmanna og að þeir skuli vera opinberir sýslunarmenn. Félagið kemur fram fyrir hönd þeirra gagnvart dómstólum og yfirvöldum skv. 1. mgr. 5. gr. en þar er hvergi minnst á að atyrða skuli dómsmálaráðherra eða gera lítið úr sitjandi hæstaréttardómara með sleggjudómum en hvort tveggja gerði formaðurinn í umræddum pistli eins og nú verður rakið.

1. Alhæfingin að engum dyljist að málefnalegur samanburður hefði skilað öðrum umsækjendum framar hinum nýskipaða hæstaréttardómara er dæmalaus. Þetta duldist a.m.k. undirrituðum en einnig hinum lögbundna umsagnaraðila, Hæstarétti sjálfum. Hæstiréttur rekur í umsögn sinni nám og starfsferil umsækjenda og tekur fram að þeir séu allir hæfir en segir síðan:

Auk þeirra meginatriða varðandi menntun og starfsreynslu umsækjenda ... verða dómendur Hæstaréttar jafnframt að taka tillit til þeirrar myndar, sem þeir hafa fengið af hæfni umsækjendanna með því annars vegar að fjalla um dómsmál, sem umsækjendur úr hópi héraðsdómara hafa leyst úr í núverandi störfum sínum, og hins vegar að hlýða á málflutning og virða fyrir sér annan málatilbúnað umsækjendanna, sem koma úr röðum lögmanna.

Hér kveðst Hæstiréttur réttilega ætla að leggja til grundvallar reynslu sína af umsækjendum og hvernig þeir hefðu staðið sig í reynd. Að undangenginni þeirri skoðun kaus Hæstiréttur að gera ekki upp á milli þeirra um hæfni þótt hann hefði sagt að hæfni þeirra gæti legið á mismunandi sviðum. Hæstarétti hafði fundist nógu mikið til Ólafs Barkar Þorvaldssonar koma að hann hafði tvívegis kallað hann til setu sem varadómari í fimm manna dómi. Að þessu gengnu tjáir Hæstiréttur veitingarvaldinu þá skoðun sína að heppilegast sé fyrir réttinn, vegna deildaskiptingar hans, að fá inn dómara sem liðtækastir væru til að afgreiða skrifleg kærumál í þriggja manna dómi og nefndi þar sérstaklega til sögunnar Eirík Tómasson og Ragnar Halldór Hall. Þessi ábending Hæstaréttar er ekki innan lögbundins hlutverks hans sem umsagnaraðila þótt honum sé að sjálfsögðu heimilt að vekja athygli ráðherra á sjónarmiðum sínum. Aftur á móti er það veitingarvaldsins að meta á hvað skuli leggja áherslu við samsetningu Hæstaréttar. Mat ráðherra það svo að nám Ólafs Barkar Þorvaldssonar í Evrópurétti væri það sem sett skyldi á oddinn. Skyldi engan undra þar sem samspil alþjóðasamninga og landsréttar hafa leitt til uppstokkunar í réttarheimildarfræðinni og snerta sjálft fullveldi þjóðarinnar. Fræðistörf Ólafs Barkar í framhaldsnáminu munu ekki síst hafa lotið að þessum atriðum. Það er hlutverk og skylda hins pólitíska veitingarvalds að meta á hvað skuli lögð áhersla og bera ábyrgð á niðurstöðunni, einkum gagnvart Alþingi og kjósendum.

2. Formaður LMFÍ virðist leggja framgöngu dómsmálaráðherra út á versta veg og sakar hann um valdhroka með orðalaginu "gagnrýni hins vegar að engu hafandi" og þykist skilja ráðherra svo að hann telji Hæstarétt klíku sem vilji velja nýja dómara sjálf. Það er að sjálfsögðu mál hvers og eins hvort þeir vilji leggja út af ummælum manna á versta veg. Undirritaður gat ekki betur heyrt en að ráðherra væri að benda á að aðgreina þurfi veitingarvald og lögbundinn umsagnaraðila. Lögbundinn umsagnaraðili metur það sem honum er falið en veitingarvaldið metur sjálft á hvað það vill leggja áherslu við skipan í embætti, svo fremi að áherslurnar séu lögmætar. Sem lýðræðissinni vil ég að valdið sé í höndum stjórnskipaðra valdhafa sem eru lýðræðislega kjörnir, frekar en í höndum annarra embættismanna og er ekkert eðlilegra en að ráðherra bendi á þennan grundvallarmismun á veitingarvaldi og umsagnaraðilum. Gat ég ekki túlkað það sem neina árás á Hæstarétt eða að hann væri að tala niður til réttarsins, heldur þvert á móti.

Hæstiréttur mat umsækjendur öðrum þræði á grundvelli atriða sem rétturinn hafði yfirsýn yfir og ekki urðu lesin út úr ferilskrá umsækjenda. Að slíkri skoðun undangenginni sá rétturinn ekki ástæðu til að raða umsækjendum eftir hæfni sem þó er tvímælalaust heimilt en upplýsti þess í stað um atriði sem lutu að samsetningu réttarins. Ráðherra kaus réttilega að prjóna ekki við þetta hæfnismat. Tel ég það fyrirmynd sem formaður LMFÍ og reyndar ýmsir opinberir eftirlitsaðilar með stjórnsýslu mættu hafa eftir.

Undirritaður telur að formaðurinn hafi hlaupið á sig og dregið félagið með sér út í fen og haft, fyrir hönd okkar félagsmanna, óviðurkvæmileg ummæli utan þess hlutverks sem hann og félagið hefur. Óska ég eftir að stjórnin geri viðeigandi ráðstafanir:

1 Með því að álykta og lýsa því yfir að formanninum hafi ekki verið heimilt að viðhafa þessi ummæli í nafni félagsins og félagið taki ekki undir þau.

2 Að stjórnin hlutist til um að formaðurinn geri hreint fyrir sínum dyrum með því að biðjast afsökunar á að hafa viðhaft þessi ummæli í nafni félagsins. Ég geri hins vegar að sjálfsögðu ekki athugasemdir við að formaðurinn hafi eigin skoðanir en haldi félaginu utan við þær.

Formaður félagsins er ekki að túlka sjónarmið félagsmanna. Flestir þeir sem ég hef rætt málefnið við eru ánægðir með hvernig til tókst við val á dómara í Hæstarétt, gjarnan harðánægðir. Ég tek þó fram að ég hef frekar forðast að ræða málið við þá sem tengjast einhverjum umsækjenda, t.d. eru á sömu lögmannsstofum og þeir.

Þar sem formaðurinn skrifaði pistil sinn opinberlega mun ég birta bréf þetta opinberlega, svo og svar stjórnarinnar til mín.

Virðingarfyllst,

Einar Gautur Steingrímsson hrl.