Helgi Guðmundsson
Helgi Guðmundsson
Fjölmiðlar eru of mikilvægt svið til þess að þeir megi lenda á örfárra manna höndum - fortíðin skiptir ekki máli.

SÍÐAN ljóst varð að ríkisstjórnin myndi leggja fram frumvarp um að setja skorður við of mikill samþjöppun á fjölmiðlamarkaði hefur geisað mikið fár í fjölmiðlum sem von er. Á hinn bóginn er eins og margir hafi misst fótanna í röksemdafærslunni. Þetta virðist einkum eiga við þá sem eru á móti hugsanlegri lagasetningu og virðist ýmsum fyrirmunað að sjá aðalatriði málsins og almennt gildi þess. DV og Fréttablaðið álíta að meintur pirringur Davíðs Oddssonar við Baug og Jón Ásgeir Jóhannesson, séu eina ástæða þess að lög verði sett til að hamla gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Nú hefur það auðvitað ekki farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fjölmiðlum undanfarin misseri, að núningur er á milli Davíðs og Baugs - svo ekki sé fastar að orði kveðið. En ætti það að koma í veg fyrir lagasetningu af þessu tagi? Hefði lagasetning, með sömu ákvæðum, verið réttari og betri ef ráðherrann hefði ekki tjáð sig um veldi Baugs í viðskiptalífinu?

Menn geta auðvitað skemmt sér yfir því að Baugsmenn og forsætisráðherra skiptist á skotum í fjölmiðlum, jafnvel haldið því fram að ætlunin sé að lögfesta geðvonsku Davíðs Oddssonar, en röksemdafærsla af því tagi breytir engu um kjarna málsins. Hvert einasta mannsbarn í landinu veit að Baugsveldið ræður feikilega miklu í viðskiptalífinu og það á mörgum sviðum. Þeir sem ráða ferðinni hjá Baugi sýnast hvorki verri né betri en aðrir bisnissmenn, þeir eru duglegir og útsjónarsamir, sjá víða viðskiptatækifæri og það má eiginlega segja að þeim hafi tekist að einkavæða matvöruverslun samvinnuhreyfingarinnar, og þykir minni kynslóð það áreiðanlega vel af sér vikið. Þessar staðreyndir hljóta að kalla á viðbrögð þegar kemur að því að svo öflug viðskiptasamsteypa teygir sig inn á fjölmiðlasviðið og nær undir sína regnhlíf mörgum fjölmiðlum og af ólíku tagi. Það væru í hæsta máta einkennilega viðbrögð hjá ábyrgum stjórnmálamönnum að yppta öxlum yfir slíkri þróun og þá yrðu væntanlega einhverjir til að spyrja: Eru forsætisráðherra og Baugsmenn perluvinir eða hvað?

Fortíðin skiptir ekki máli

Eins og í pottinn er búið hljóta almennar reglur gegn samþjöppun á fjölmiðlamarkaði að koma niður á Norðurljósum, af þeirri einföldu ástæðu að ekkert annað fyrirtæki er í sömu stöðu um þessar mundir. En þær hljóta líka að koma niður á öðrum fyrirtækjum eins og Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Því fyrirtæki hlýtur að verða óheimilt að eiga í ljósvakamiðlum eftir setningu þessara laga. Þá segja andstæðingarnir: Þegar Árvakur vildi fara í sjónvarpsrekstur gerði Davíð Oddsson enga athugasemd. En hverju breytir það? Nákvæmlega engu. Að Árvakur skyldi á einhverjum tíma athugasemdalaust stefna á sjónvarpsrekstur gefur Norðurljósum engan sjálfkrafa rétt til að breiða sig yfir lungann úr fjölmiðlamarkaðnum. Það breytir heldur engu að Morgunblaðið skuli hafa haft yfirburðastöðu á blaðamarkaði meginhluta 20. aldar án þess að valdamenn Sjálfstæðisflokksins sæju eitthvað athugavert við það. Eins og staðan er á vordögum 2004 er eðlilegt að stjórnmálamenn segi: Fjölmiðlar eru of mikilvægt svið til þess að þeir megi lenda á örfárra manna höndum - fortíðin skiptir ekki máli.

Getur Morgunblaðið orðið málgagn VG?

Mörgum blaðamönnum virðist finnast að þeir séu vændir um óheiðarleg vinnubrögð, að þeir gangi erinda eigendanna en hugsi minna um þjónustu við almenning. Davíð Oddsson hefur að sönnu sagt að menn geti séð hverra erinda ritstjórnir DV og Fréttablaðsins gangi þessa dagana og er á honum að skilja að eitthvað sé athugavert við hegðun þeirra. Að DV og Fréttablaðið hamist gegn væntanlegu frumvarpi er fullkomlega eðlilegt og engin ástæða til að gera minna úr starfsmönnum blaðanna fyrir það. Eigendur blaða ráða ritstjóra sem þeir treysta til að gefa út það blað sem þeir vilja eiga hlut í, og ritstjórar annað starfsfólk. Eigendur setja sínu blaði meginreglur þannig að starfsmenn og eigendur verða óhjákvæmilega í sama liði. Þetta þýðir ekki að ritstjórar og blaðamenn séu í öllum atriðum og alltaf undir hælnum á eigendum, birti um þá lofgreinar og þegi stöðugt yfir því sem eigendur vilji láta þegja yfir. En hvort sem mönnum líkar betur eða verr geta starfsmenn blaðs ekki þvingað eigendur til að gefa út blað sem þeir vilja ekki gefa út. Við þau skilyrði er skipt um starfsfólk og það sem meira er: Ekkert er við það að athuga, eða halda menn að Árvakur myndi sætta sig við að Styrmir Gunnarsson breytti Morgunblaðinu í málgagn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs? Að sjálfsögðu kæmist hann ekki upp með það - honum yrði vikið úr starfi.

Mikilsverð tímamót

Ástæða er til að velta fyrir sér hvort nú séu að verða mikilsverð tímamót. Margir hægrimenn og einkavæðingarsinnar hafa haft horn í síðu Ríkisútvarpsins en nú bregður svo við að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins tala opinskátt um nauðsyn þess að styrkja Ríkisútvarpið, meðal annars með því að auka tekjur þess. Þetta er sérstakt fagnaðarefni því satt að segja hefur einatt verið ástæða til að óttast að þessari mikilvægu stofnun yrði breytt i hlutafélag og hún seld einkaaðilum í framhaldinu. Ef svo fer að Alþingi setji reglur til að hamla gegn of mikilli samþjöppun á fjölmiðlamarkaði annars vegar og finnur ráð til að styrkja Ríkisútvarpið hins vegar þá er hvort tveggja sérstakt fagnaðarefni, fyrir þá sem vilja fjölbreytta og trausta fjölmiðlun í landinu, ekki síst vegna þess að hægrimenn eiga í hlut. Vonandi ná sem flestir stjórnarandstöðuþingmenn áttum í málinu, og hika ekki við að ganga í lið með ríkisstjórninni. Málið hefur mikla almenna þýðingu, hvað sem líður pirringi á milli einstaklinga, sem mikilvægt er að þingmenn átti sig á. Styrkur skynsamra þingmanna felst meðal annars í því að kunna að vera með málum, eins þótt þau séu flutt af þeim sem þeir eru jafnaðarlega gersamlega ósammála.

hágé.

Helgi Guðmundsson skrifar um fjölmiðlafrumvarp

Höfundur er rithöfundur og fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans.