VÍSINDAMENN eru nú nokkru nær um það en áður hvers vegna mörgum reynist erfitt að léttast.

VÍSINDAMENN eru nú nokkru nær um það en áður hvers vegna mörgum reynist erfitt að léttast.

Tveir hópar vísindamanna birta greinar í nýjasta hefti tímaritsins Science, þar sem sagt er frá rannsóknum á hormóninu leptíni, sem er framleitt af fitufrumum og stjórnar því hvort fólk upplifir sig hungrað eða mett. Svo virðist sem leptín gegni mikilvægu hlutverki við að koma á taugatengingum sem tengjast matarlyst, bæði strax á fósturskeiði og síðar á ævinni. Rannsóknirnar voru gerðar á músum, en vísindamennirnir telja að niðurstöður þeirra eigi einnig við um menn. Segja þeir þær varpa ljósi á það hvers vegna margir virðist fastir í sömu þyngd, þrátt fyrir lífstílsbreytingar og viðleitni til að léttast.

Jeffrey M. Friedman, sérfræðingur við Howard Hughes-rannsóknastofnunina við Rockefeller-háskóla í New York, uppgötvaði leptín fyrir tíu árum. Þegar fitufrumur losa hormónið inn í blóðrásina dregur það úr matarlyst og skortur á leptíni leiðir því til ofáts og offitu. Ekki hafa enn verið gerðar tilraunir með leptín á mönnum, og þar sem fyrrgreindar rannsóknir benda til þess að það hafi áhrif á byggingu heilans þegar á fósturskeiði er alls óvíst að vonir um að það geti gagnast sem töfralyf við offitu verði nokkurn tímann að veruleika.