SALA Össurar hefur aldrei verið meiri í einum ársfjórðungi en á fyrsta fjórðungi þessa árs. Hagnaður félagsins eftir skatta nam um 3,3 milljónum bandaríkjadala, um 230 milljónum íslenskra króna.

SALA Össurar hefur aldrei verið meiri í einum ársfjórðungi en á fyrsta fjórðungi þessa árs. Hagnaður félagsins eftir skatta nam um 3,3 milljónum bandaríkjadala, um 230 milljónum íslenskra króna. Þetta er yfir 130% aukning frá sama tímabili í fyrra en þá var hagnaðurinn um 1,4 milljónir dala. Hagnaður fyrir skatta nam um 4,3 milljónum dala á fyrsta fjórðungi þessa árs en um 1,8 milljónum í fyrra.

Tekjur Össurar jukust um 41% milli ára og voru um 30,7 milljónir dala á fyrsta fjórðungi þessa árs, sem er um 2,1 milljarður íslenskra króna. Þegar tillit hefur verið tekið til gengisáhrifa voru tekjurnar 34% meiri á fyrsta fjórðungi þessa árs en á sama tímabili í fyrra. Þetta er mesta sala samstæðu Össurar á ársfjórðungi frá upphafi og 11% aukning frá fjórða ársfjórðungi 2003. Kaup Össurar á Generation II fyrirtækjunum á síðasta ári vega mest í söluaukningunni en fyrirtækið kom að fullu inn í samstæðu Össurar á fjórða ársfjórðungi 2003. Söluaukning milli ára að teknu tilliti til gengisáhrifa og fyrirtækjakaupa var rúm 4% milli ára en kaupin á Generation II fyrirtækjunum skiluðu ein og sér 50% söluaukningu samstæðunnar á milli ára.

Hagnaður Össurar fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, á fyrsta fjórðungi þessa árs nam 5,7 milljónum dala samanborið við 2,6 milljónir dala á sama tímabili árið áður. Sem hlutfall af veltu batnaði EBITDA milli ára úr 12% í 19%.

Samþætting gekk vel

Í tilkynningu Össurar segir að rekstur félagsins hafi gengið vel á fyrsta fjórðungi þessa árs. Samþætting Generation II fyrirtækjanna að rekstri Össurar hafi gengið áfallalaust og endurskipulagning og strangt kostnaðaraðhald hafi skilað árangri. Vegna söluaukningar hafi verið talsverður þrýstingur á afköst framleiðslueininga fyrirtækisins og nýting á föstum framleiðsluþáttum hafi verið hagstæð. "Meiriháttar skipulagsbreytingar og hröð samþætting Generation II fyrirtækjanna inn í rekstur Össurar skilar sér nú í rekstrarhagræðingu. Þessum breytingum fylgdi óhjákvæmilega verulegur kostnaður undir lok síðasta árs," segir í tilkynningu félagsins. Þá segir að horfur í sölu séu þokkalegar.