HAGNAÐUR KB banka á fyrsta fjórðungi ársins nam 2.650 milljónum króna, sem er 93% aukning frá sama tímabili í fyrra og tæplega 6% meiri hagnaður en greiningardeildir hinna bankanna höfðu spáð.

HAGNAÐUR KB banka á fyrsta fjórðungi ársins nam 2.650 milljónum króna, sem er 93% aukning frá sama tímabili í fyrra og tæplega 6% meiri hagnaður en greiningardeildir hinna bankanna höfðu spáð. Arðsemi eigin fjár var 24,4% en var 17,5% á sama ársfjórðungi í fyrra.

Í tilkynningu frá KB banka segir að aðstæður á þeim mörkuðum sem bankinn starfi á hafi verið hagfelldar á fyrsta fjórðungi. Hlutabréfavísitölur hafi hækkað og velta aukist umtalsvert. Af helstu hagvísum megi sjá að efnahagsbati sé hafinn og horfur séu góðar.

Einnig segir að rekstur bankans í Svíþjóð gangi sífellt betur og reksturinn í Lúxemborg, Finnlandi, Danmörku og á Englandi gangi mjög vel. Áform séu uppi um að auka í nánustu framtíð við starfsemi bankans í fjórum síðastnefndu löndunum.

Ríflega 40% aukning tekna

Hreinar rekstrartekjur jukust um 41% milli ára og námu 9.571 milljón króna. Hreinar vaxtatekjur jukust um 46% og námu 3.501 milljón króna.

Vaxtamunur, þ.e. hlutfall hreinna vaxtatekna af meðalstöðu heildarfjármagns, var 2,4%, en vaxtamunurinn fyrir allt árið í fyrra var 2%. Þóknanatekjur jukust um 60% milli ára, en gengishagnaður dróst saman um 8%.

Rekstrargjöld jukust um 16% frá fyrsta fjórðungi í fyrra og hlutfall rekstrargjalda af hreinum rekstrartekjum, kostnaðarhlutfallið, lækkaði úr 65% í 53% milli ára.

Lagðar voru 1.150 milljónir króna inn á afskriftareikning útlána, sem er 83% aukning frá sama tímabili í fyrra en heldur lægri fjárhæð en á þriðja og fjórða fjórðungi fyrra árs. Afskriftareikningur útlána sem hlutfall af útlánum og veittum ábyrgðum hækkaði úr 2,4% um áramót í 2,5% í lok mars. Í tilkynningu bankans er haft eftir Sóloni R. Sigurðssyni forstjóra, að afskriftir séu enn of miklar en ætla megi að þær fari minnkandi.

Eignir aukast um 43 milljarða króna

Eignir KB banka jukust um 43 milljarða króna, 8%, á fyrsta fjórðungi ársins og námu 601 milljarði króna í lok mars. Útlán jukust um 6% og innlán um 2%.

Eiginfjárhlutfall KB banka, reiknað á CAD-grunni, lækkaði úr 14,2% um áramót í 11,2% í lok mars. Bankinn jók hlut sinn í Singer & Friedlander um helming í tæp 20% á tímabilinu og í tilkynningunni segir að án þessarar fjárfestingar hefði eiginfjárhlutfallið verið 13,9%.