UNDIRLIGGJANDI rekstur KB banka batnaði á fyrsta fjórðungi ársins frá því sem var í fyrra, sama við hvaða fjórðung þess árs er miðað.

UNDIRLIGGJANDI rekstur KB banka batnaði á fyrsta fjórðungi ársins frá því sem var í fyrra, sama við hvaða fjórðung þess árs er miðað. Með þessu er átt við að sveiflukenndi hluti rekstrarins, aðallega gengishagnaður vegna verðbréfaeignar, ræður ekki jafnmiklu um góða afkomu og áður. Þetta má meðal annars sjá með því að skoða kostnaðarhlutfall bankans án gengishagnaðar. Kostnaðarhlutfallið án gengishagnaðar var 66% á fyrsta fjórðungi þessa árs, en 80% til 92% í fyrra. Þetta gefur vísbendingu um aukinn stöðugleika í rekstri og að bankinn sé ekki jafnháður góðri afkomu af verðbréfaviðskiptum og áður. Þá hefur afkoman erlendis batnað sem einnig ætti að auka stöðugleika í rekstri.

Afskriftir valda vonbrigðum

Vonbrigðum veldur í uppgjörinu að framlag í afskriftareikning útlána hélst hátt á fyrsta fjórðungi ársins, en það jókst mjög á seinni hluta síðasta árs frá því sem áður var og stjórnendur bankans hafa lagt áherslu á að þetta framlag þyrfti að lækka.

Meirihluti framlags í afskriftareikning kom frá viðskiptabankasviði, sem er vegna útlána til einstaklinga og smærri rekstraraðila, en minnihluti var vegna útlána fyrirtækjasviðs til meðalstórra og stærri fyrirtækja. Þá vekur athygli að afskriftaframlag fyrirtækjasviðsins dregst saman um 33% frá síðasta fjórðungi fyrra árs, en á viðskiptabankasviðinu eykst framlagið um 63% milli fjórðunga og er mun hærra en í nokkrum fjórðungi fyrra árs.

Afkomutilkynning KB banka var birt í gærmorgun og lækkaði gengi bréfanna um 2,6% í viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,9%.

innherji@mbl.is