* ÓLAFUR Örn Haraldsson, annar dómarinn í leik ÍR og Vals , notaði einu sinni körfuknattleikstakta í gær. ÍR-ingar náðu boltanum við eigin vítateig og brunuðu í sókn.

* ÓLAFUR Örn Haraldsson, annar dómarinn í leik ÍR og Vals , notaði einu sinni körfuknattleikstakta í gær. ÍR-ingar náðu boltanum við eigin vítateig og brunuðu í sókn. Ólafur sá svitapoll á gólfinu við teig ÍR , gaf manninum á þveglinum merki um að koma inná og þurrka á meðan leikurinn hélt áfram hinum megin á vellinum. Þetta er iðulega gert í körfunni og mættu handboltadómarar taka þetta til athugunar því ef þetta er hægt í körfu hlýtur það að ganga í handbolta, sem er hægari íþrótt á stærri velli.

* GUNNLAUGUR Jónsson fyrirliði Skagamanna verður í leikbanni þegar ÍA mætir FH í undanúrslitum í deildabikarnum í knattspyrnu á sunnudaginn. Gunnlaugur fékk að líta rauða spjaldið á 40. mínútu í sigri ÍA á Fylki í fyrrakvöld en áður hafði Valur Fannar Gíslason , Fylki , fengið reisupassann á 13. mínútu leiksins.

* FORRÁÐAMENN danska kvennahandknattleiksliðsins Slagelse hafa lagt á hilluna áform um að leika fyrri úrslitaleik liðsins í Meistaradeildinni gegn Krim Ljubljana á Parken í Kaupmannahöfn . Slagelse leikur fyrri leik liðanna í Bröndby-höllinni 15. maí en forsvarsmenn liðsins sáu sér ekki fært að uppfylla allar kröfur EHF á þeim 18 dögum sem liðið hafði til stefnu fyrir leikinn.

* HANDKNATTLEIKUR hefur ekki farið fram á Parken fram til þessa en þar leikur danska knattspyrnulandsliðið heimaleiki sína en hægt er að loka Parken með því að draga þak yfir völlinn. Rúmlega 40 þúsund áhorfendur hefðu getað fylgst með Slagelse á Parken en mun færri komast í Bröndby höllina.

* MARCELLO Lippi mun hætta sem þjálfari ítalska knattspyrnuliðsins Juventus í lok leiktíðarinnar en hinn 56 ára gamli þjálfari var með samning við félagið allt fram til loka næsta keppnistímabils. Lippi greindi frá ákvörðun sinni á fundi með fréttamönnum í Tórínó í gær. "Lokakaflinn í frábærri sögu er nú á enda, Juventus verður ávallt í hjarta mínu og ekkert mun koma í veg fyrir það," sagði Lippi .

* LIPPI segir að hann hafi ekki hug á því að taka við félagsliði, en að ítalska landsliðsþjálfarastaðan væri áhugaverður kostur. "Ég gæti ekki afþakkað slíkt boð, en það hefur enn ekki borist til mín," sagði Lippi sem stýrði Juventus til sigurs í deildarkeppninni á Ítalíu tvö sl. keppnistímabil, en liðið er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar, 13 stigum á eftir AC Milan sem er í efsta sæti.

* FORSVARSMENN NBA-liðsins Boston Celtic staðfestu í gær að Doc Rivers hefði verið ráðinn þjálfari liðsins. Rivers var áður þjálfari Orlando Magic .