Ef hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp verður að lögum nú á næstunni hefur það gerst tvisvar sinnum á þessu þingi að stjórnmálamenn hafa sett lög sem er sérstaklega beint gegn ákveðnum aðilum eða gjörningi.

Ef hið umdeilda fjölmiðlafrumvarp verður að lögum nú á næstunni hefur það gerst tvisvar sinnum á þessu þingi að stjórnmálamenn hafa sett lög sem er sérstaklega beint gegn ákveðnum aðilum eða gjörningi. Fyrra dæmið er að sjálfsögðu hið meingallaða sparisjóðafrumvarp sem varð að lögum í febrúar," segir Þórður Heiðar Þórarinsson á Deiglunni.

Það virðist eitthvað gera það að verkum að stjórnmálamenn telja sig vita betur hvernig hlutum skuli hagað en þorri þjóðarinnar. Kannski er það vegna þess að þjóðin kýs þetta fólk til að taka slíkar ákvarðanir fyrir sig. Þrátt fyrir það er að sjálfsögðu hægt að misbeita þessu valdi með því að setja lög eða ólög beinlínis til að hygla aðilum sér þóknanlegum. Það er einnig hægt misbeita þessu valdi með því að setja lög sem grafa undan ákveðnum aðilum. Lögin um sparisjóðina sem voru samþykkt í febrúar og fjölmiðlalögin sem eru til umræðu þessa stundina eru skýrt dæmi um misbeitingu slíks valds. Það dylst engum, sem er ekki í skollaleik með bláan borða með mynd af foringjanum fyrir augunum, að fjölmiðlafrumvarpið beinist gegn Baugssamsteypunni og Jóni Ásgeiri. Sömuleiðis fór aldrei á milli mála að sparisjóðafrumvarpið varð að lögum gagngert til að koma í veg fyrir ákveðinn gjörning - kaup KB banka á SPRON. Inngrip stjórnmálamanna í eðlilegan og frjálsan gang þjóðfélagsins með þessum hætti eru óþolandi og ólíðandi.

Spurningin er því sú hvort stjórnmálamenn þurfi ekki að semja leikreglur um sjálfa sig líkar þeim sem þeir telja að allir aðrir þurfi að hlíta. Er ekki eðlilegt og sanngjarnt, með hliðsjón af umræddum sparisjóðalögum og fjölmiðlafrumvarpinu að lög, sem samþykkt eru á hinu háa Alþingi, þurfi að vera almenns eðlis? Þarf ekki að reyna að koma í veg fyrir að stjórnmálamenn beiti valdi sínu gegn mönnum eða gjörningum sem þeir hafa meinbugi á? Telji menn brotið á sér í þessu samhengi og lög séu augljóslega sett gegn sér eða samningum sem þeir standa að; ættu þeir ekki að hafa rétt á að fara fyrir Hæstarétt, sem gæti þá ógilt lögin eða t.a.m. frestað gildistöku þeirra, líkt og þekkist í hinum vestræna heimi?

Það er erfitt að hefja leik þegar það má búast við því að stjórnmálamenn grípi inn í og breyti reglunum í miðjum leik. Er nema vona að maður spyrji hvort það þurfi ekki að herða aðhald með þeim þegar þeir haga sér svona?" spyr Þórður Heiðar.